149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[16:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Já, ég tek undir áhyggjur frá fagaðilunum okkar. Það er ekki nokkur spurning og ég býst við að það sé ekki síst vegna þess að ekki er samið við þessa aðila. Þeim er ekki gefinn kostur á að vinna af fullum krafti, t.d. fyrir sjúklingana.

Læknar horfa á sjúklingana okkar flæða úr landi með margföldum kostnaði. Þannig að ég segi að það er alveg ástæða til að taka mark á nákvæmlega þessu, því að það er nú gjarnan það sem við viljum gera hér á hinu háa Alþingi, að leita eftir umsögnum frá þeim sem jafnvel vita betur en við um hvernig ákveðin mál eru vaxin. Í þessu tilviki segi ég, hv. þm. Birgir Þórarinsson, að ég er algjörlega sammála því sem fram kemur í umsögnum frá fagaðilunum í heilbrigðisstéttinni.