149. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:12]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er alveg hjartanlega sammála því og framtíðarstefnumótun eins og hér er á ferðinni ætti einmitt að taka á stóru á áskorununum fyrir okkur, á því hver framtíðarþörf okkar er fyrir hjúkrunarheimili, hver framtíðarþörf okkar er í uppbyggingu innan heilbrigðisþjónustunnar á hinum ýmsu sviðum hennar, hvort sem við horfum til heilsugæslunnar, geðheilbrigðismála, sjúkrahúsanna sjálfra o.s.frv. Við sjáum fjölmörg atriði eins og vaxandi tíðni liðskiptaaðgerða sem einn af fylgifiskum hækkandi meðalaldurs þjóðarinnar, svo dæmi sé tekið. Ég sakna þess verulega að ekki sé reynt að leggja einhverja mælistiku á umfang þessa og hver kostnaðurinn sé við að byggja heilbrigðiskerfið upp til þess að takast á við þær áskoranir, hvaða möguleika við höfum þá á móti til að nálgast hlutina mögulega með nýjum hætti og ná fram einhverju hagræði á móti með nýsköpun eða nýrri nálgun í þjónustunni.

Enn og aftur minni ég á samspil velferðarkerfisins í heild við heilbrigðiskerfið og hvernig með aðgerðum á hvoru sviði um sig, hinum félagslega hluta þess eða heilbrigðiskerfisins, er hægt að spara verulega útgjöld á annarri hliðinni með jafnvel tiltölulega litlum útgjöldum á hinni. Þarna hefði maður viljað sjá miklu skýrari markmið. Það er auðvitað til lítils að tala í stefnu um markmið eins og skilvirkni og gæði ef við erum ekki með neina mælikvarða fram setta um það hvernig við ætlum að meta árangur okkar, hvert við erum að stefna, hvernig við ætlum að meta það hvort okkur miði þangað eða ekki.