Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 114. fundur,  31. maí 2023.

landbúnaðarstefna til ársins 2040.

914. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég var einmitt framsögumaður á máli um þetta sem hv. þingmaður nefnir á síðasta kjörtímabili, þ.e. uppsöfnun auðmanna eða kaupa auðmanna á landi. Það er alltaf hægt að gera betur í þeim málum en þar náðum við þó sannarlega utan um það að ekki er hægt að eiga nema ákveðinn hektarafjölda, mig minnir að þannig hafi það verið skilgreint. Ég hef líka áhyggjur af þessu. Mér finnst það skipta rosalega miklu máli. Mér finnst líka skipta máli að við skilgreinum land, ég tek undir það. Við þurfum að skilgreina land og það er vinna í gangi við það og sveitarfélögin þurfa að gera það líka, að ákveða í rauninni hvað eigi að vera ræktarland, hvað er land sem við getum notað undir skógrækt eða hvað annað við viljum gera. Ég hef t.d. áhyggjur af því að einkaaðilar eru að selja lönd til fyrirtækja sem eru að kolefnisjafna sig. Það getur verið gott út af fyrir sig en það er jafnvel gert án þess að sveitarfélög séu sérstaklega að huga að því að þetta sé heppilegasta landið til skógræktar. Hafandi sagt það þá er ég skógræktarkona. Þetta skiptir allt saman afskaplega miklu máli, að það sé ljós á bæjunum þar sem hægt er að vera, að aðilar verði ekki hreinlega leiguliðar á jörðum sem auðmenn eru að kaupa upp, það er þó betra að vera með ábúð en ekki, en það kemur í veg fyrir það að menn geti endurnýjað hjá sér eða keypt ný tæki eða tól af því að þeir hafa ekkert að veðsetja. Þannig að ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af uppsöfnun á landi, hvort sem þar eru erlendir eða íslenskir auðmenn, skiptir ekki máli, eða fyrirtæki. Þetta þurfum við að vakta. En við komum málinu í gang á síðasta kjörtímabili.