154. löggjafarþing — 114. fundur,  17. maí 2024.

Störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég horfði á kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi, eins og margir aðrir, og sá þar margar áhugaverðar fréttir en þó eina sérstaklega. Hún varðaði og fjallaði um gleðigöngu nemenda að ég held í Laugardalnum í Reykjavík, ef ég tók rétt eftir. Þar vakti sérstaka athygli mína bæði framsaga og skilti sem sýnt var í sjónvarpsfréttinni sem á stóð: Vertu þú. Og rökin sem ungu piltarnir sem héldu á skiltinu notuðu aðspurðir, hvers vegna þeir væru með þetta skilti og gengju þessa göngu, voru þessi: Við erum að styðja við hinsegin fólk. Maður á að þora að vera maður sjálfur.

Fyrr í vikunni birti ILGA, regnhlífarsamtök yfir 700 hinsegin félaga í Evrópu og Mið-Asíu, uppfært regnbogakort. Það kemur í ljós að Ísland er í öðru sæti. Þetta er virkilega mikið fagnaðarefni vegna þess að fyrir sjö árum sátum við í 17. sæti listans. Ekki nóg með það heldur erum við annað árið í röð í fyrsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu.

Í stjórnarsáttmála þeirrar ríkisstjórnar, sem mynduð var árið 2017 undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, kom fram að við vildum, sem mynduðum þann ríkisstjórnarmeirihluta, koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks, til að mynda með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði. Árangurinn sem við getum öll glaðst yfir í dag, og birtist m.a. í þessum fréttaflutningi í gærkvöldi, ber vott um samstöðu og ríkan vilja. Þrátt fyrir það hefur hinsegin samfélagið, sem getur fagnað eins og við öll hin, og sér í lagi við sem tilheyrum hinsegin samfélaginu, minnt okkur á það, þeirra endalausa barátta minnir okkur á það, að bakslagið er eitthvað sem við fylgjumst með og sjáum og verðum áskynja reglulega og mannréttindi eru eitthvað sem þarf að standa vörð um og vinna að stanslaust.

Ég minni á það, sem ég hef sagt áður, að mannréttindi eins skerða ekki mannréttindi annars.