149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

afnám krónu á móti krónu skerðingar.

[10:03]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir, því miður, mjög rýr svör. Hann svaraði því ekki: Á að taka út krónu á móti krónu skerðingu að fullu? Á að hætta með krónu á móti krónu? Samkvæmt því sem ég skil hann, ég tek því bara þannig, á ekki að gera það. Það er ekki stefnan.

Við verðum að átta okkur á því að 1%, sem var afgangurinn sem átti að vera á fjármálaáætlun, er nákvæmlega sú tala sem þið eruð búin að spara ykkur með krónu á móti krónu skerðingu síðan eldri borgarar tóku sitt út. Það er alveg óþolandi að tala um 35 aura afslátt af þessu, það dugar ekki. Fólk verður fyrir kostnaði við að fara í vinnu. Það er annaðhvort að taka þetta almennilega, gera þetta almennilega en ekki að vera að krafsa í þetta. Hitt er síðan enn þá ömurlegra, að svíkja loforðin sem voru um krónu á móti krónu burt.