149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég kannast við stefið. Ég kannast líka við að yfirvöld hverju sinni vilja haga hagkerfinu á þann hátt sem endurspeglar þeirra eigin langtímahugmynd um það hvernig haga eigi ríkisrekstri. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að þetta samtal komist á hreint í sambandi við kenninguna sem kennd er við Keynes, og að því sé þá fylgt eftir með einhverri langtímahugsun um hvaða hlutverki það eigi að gegna.

Mér hefur alltaf fundist í orðræðunni látið eins og auðvitað eigi að gera hlutina svona, auðvitað eigi að spara til mögru áranna á uppgangstíma og auðvitað eigi að gefa í í útgjöldum og lækka skatta og þess háttar þegar kemur niðursveifla. Síðan er ekki svo auðvelt að framkvæma verkið þegar á hólminn er komið. Það er margt þannig í pólitík. Þetta er líka svona varðandi alþjóðlega hjálp þar sem allir koma í pontu og segja: Auðvitað eigum við að hjálpa, auðvitað á að gera þetta, en svo þegar kemur að því að borga er ekki alveg jafn mikill áhugi og menn ekki alveg rosalega til í það þá.

Þetta er auðvitað eilífðarvandamál, munurinn á því að segja eitthvað sem hljómar vel og gerir eitthvað sem hefur ekki endilega þægilegar skammtímaafleiðingar fyrir skjólstæðingahópinn, nefnilega kjósendur. En hvernig ráða á bug á þessu veit ég ekki. Ég held að gott skref væri að byrja á því að fá á hreint hvort það séu einhverjar hagfræðikenningar sem við getum sammælst um í öllum meginatriðum. Ég er reyndar í flokki þar sem eru fleiri en ein og fleiri en tvær hagfræðikenningar á sveimi, jafnvel meðal hv. þingmanna þessa ágæta flokks. En ég held að það sé lykilatriði að til að umræðan geti orðið virkilega gagnleg, ekki bara fyrir fólkið hér inni eða fólkið í fjárlaganefnd heldur í samfélaginu, séu þessi gögn, þessar tölur og samhengi (Forseti hringir.) þeirra birt með hætti sem einkennist af metnaði, þ.e. að birta þau þannig að almenningur skilji og geti notað sér til gagns.