149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[20:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það var áhugavert að hlusta á hann ræða sérstaklega um mikilvægi þess að gögn séu á tölvutæku formi. Ég tek heils hugar undir það. Það var einnig áhugavert að heyra áhuga hans á hinum ýmsu hagfræðikenningum og má þá benda hv. þingmanni á að ef hann er að leita að ýmsum hagfræðikenningum og í tölvutæku formi er helstu hagfræðikenningu veraldar að finna í fyrstu Mósebók Biblíunnar þar sem við heyrum söguna af Faraó og draumum hans þar sem hann dreymdi feitar kýr og magrar kýr. Þema þeirrar kenningar er einmitt að leggja til hliðar í góðærinu og spara til mögru áranna.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram og er rétt að geta þess að ríkissjóður hefur ákveðnu hlutverki að gegna þegar dregur saman í efnahagslífinu, auka við opinbera fjárfestingu og er jákvætt í samdrætti. Að sama skapi á ríkissjóður að halda að sér höndum þegar vel gengur í efnahagslífinu.

Ég held að hv. þingmaður hafi ekki minnst á ferðaþjónustuna en ein ástæðan fyrir því að við erum að endurskoða þessa stefnu er áfall sem tengist ferðaþjónustunni, hér er eitt fyrirtæki gjaldþrota og síðan er loðnubrestur og við þurfum að endurskoða fjármálastefnuna. Telur hv. þingmaður að hugsanlegt sé að ríkisstjórnin vanmeti niðursveiflu ferðaþjónustunnar? (Forseti hringir.) Horfum við kannski jafnvel fram á verri stöðu sem þýðir að þessi fjármálastefna, sem nú er verið að endurskoða, komi hugsanlega ekki til með að ganga eftir heldur?