149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:01]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er þetta með viðskiptalegu sjónarmiðin, samkeppnina og mismunun. Það vill þannig til að sá sem hér stendur spurði nokkurra spurninga einmitt í tengslum við Isavia og hvernig gjaldtöku og innheimtu væri háttað hjá því ágæta fyrirtæki. Þá kom fram í þeim svörum að eiginlega var fyrst og fremst bent á reglur sem mætti þess vegna finna á vef fyrirtækisins og að þar sætu að sjálfsögðu allir við sama borð, það væri alveg skýrt hvernig þetta væri.

Síðan hefur komið í ljós að reglur voru a.m.k. eitthvað sveigðar til og það virðist hafa verið gert, eins og sagt er, í viðskiptalegum tilgangi. Auðvitað veldur það mismunun fyrir þá sem eru þó að strögla við að standa í skilum ef keppinautarnir komast upp með að gera það ekki.