149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:12]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn að koma hingað og taka þátt í umræðum um þetta mikilvæga plagg. Við erum að tala um fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar sem gerir ráð fyrir hallarekstri ríkissjóðs í þrjú ár. Við erum að tala um fjármálastefnu sem er rúmum 40 milljörðum verri eða í mínus miðað við núgildandi stefnu. Það er stórmál.

Getur það verið, herra forseti, að ráðherraræðið sé svo mikið í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé af hálfu stjórnarinnar einn látinn bera uppi þá myrku stefnu sem við erum að ræða og að enginn megi taka til máls úr stjórnarliðinu nema hann?