149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[21:24]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Mig langar að beina þeim orðum til hæstv. fjármálaráðherra að margur heldur mig sig. Það eru ekki allir sem spila þann gamla stjórnmálaleik sem hæstv. fjármálaráðherra lýsir í pontu undir liðnum um fundarstjórn. Þetta snerist aldrei um það að við þyrftum að vera að þæfa þetta mál og tala um það í alla nótt. Þetta snýst um það að hæstv. forseti taki tillit til beiðni stjórnarandstöðunnar og komi til móts við okkur á einhvern hátt og að stjórnarliðar taki þátt í þessari umræðu á einhvern málefnalegan hátt og við eigum alvörusamtal. Það er það sem þetta snýst um.

Við þurfum ekkert að beita neinum brögðum til þess. Við þurfum ekkert að vera hérna í einhverjum klækjabrögðum og stjórnmálaleikjum til þess. Þetta er bara heiðarlega tilraun til að eiga samtal um mjög mikilvægt mál. Mér finnst leiðinlegt að hæstv. fjármálaráðherra skuli koma upp og reyna að gera lítið úr því. Þetta finnst mér vera viðmótið sem við erum búin að fá trekk í trekk frá forseta þingsins, frá stjórnarliðum, (Forseti hringir.) að við séum í einhverjum leikjum, en það er alls ekki raunin, alla vega ekki frá mínum bæjardyrum séð. Vinsamlegast berðu meiri virðingu fyrir okkur og þinginu en þetta. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)