149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:14]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera áhugaverðar hugleiðingar hjá hv. þingmanni og ríma nokkuð ágætlega við sjónarmið sem hafa komið fram m.a. fyrir fjárlaganefnd. Hugsunin gæti kannski einmitt verið sú að í upphafi hvers kjörtímabils væri mörkuð fjármálastefna og þá festar strax í sessi þær nafnstærðir ríkisfjármálanna sem henni fylgja. Þá væri gengið út frá einhvers konar jafnaðarafgangi yfir tímabil fjármálastefnunnar en ekki endilega fest niður á hvert ár fyrir sig.

Sé hagvöxtur meiri en hóflegar viðmiðunarspár gera ráð fyrir þýðir það einmitt að afgangur verði meiri en ella og honum sé ekki umsvifalaust eytt í aukin útgjöld, heldur látinn mynda svigrúm á móti möguleikanum á einhverri niðursveiflu. Þannig geti ríkisstjórn á hverjum tíma tekist á við óvænt áföll í efnahagslífinu með því svigrúmi sem þannig hafi byggst upp og þar með þurfi ekki að endurmeta fjármálastefnuna við minnstu áföll, jafnvel algjörlega fyrirsjáanleg áföll eins og hér er um að ræða, heldur hafi verið byggt upp eitthvert varúðarsvigrúm og gengið út frá því að jafnaðarafkomu sé náð í gegnum fimm ára tímabil að meðaltali. Ég held að með því að festa nafnstærðir á útgjaldaramma ríkissjóðs í gegnum tímabilið veitum við strax ríkissjóði og ríkisstjórn á hverjum tíma miklu meira aðhald þannig að það sé ekki eins og nú hefur verið t.d. að við fáum áætlun og svo kemur hagvöxtur sem reynist vera heldur meiri og þá er þetta endurskoðað og allt saman upp á við og þeim viðbótarafgangi er eytt og svo gengur þetta koll af kolli og ríkisfjármálin þanin til hins ýtrasta, bara til að hafa ekkert svigrúm síðan eða borð fyrir báru þegar á móti blæs.