149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[23:28]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Mig langar að spyrja hann nokkurra spurninga varðandi efnistök ræðunnar. Ég tek undir að við þurfum að virða grunngildin fimm í lögum um opinber fjármál og þar á meðal um stöðugleika og varfærni. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, fjármálaráð sem er sjálfstætt í störfum, ráð sérfræðinga skipað af hæstv. fjármálaráðherra, hefur bent á þann heimatilbúna vanda sem var fólginn í núgildandi stefnu sem við erum að breyta sem felst í að við setjum spennitreyju á okkur sjálf, sem er algjörlega óþarfi og fyrirsjáanlegt að við þurftum ekki að gera.

Í umsögn um fjármálaáætlun notar fjármálaráð orðið spennitreyja tíu sinnum. Þetta er dálítið sérkennileg staða sem stjórnvöld bjóða okkur upp á. Ég er sammála hv. þingmanni að hér vantar súrefni inn í hagkerfið. Hann nefnir sérstaklega að hægt sé að lækka skatta. Sömuleiðis nefnir hv. þingmaður að við gætum stuðlað að arðbærum framkvæmdum. Ég aðhyllist svokallaða keynesíska hagfræði um að hið opinbera hafi ákveðnu hlutverki að gegna, sérstaklega í niðursveiflu, til að jafna sveiflur. Mig langar að fá vangaveltur hv. þingmanns um hvort hann sé ekki sammála því að við eigum einmitt að nýta okkur kraft hins opinbera þegar eftirspurnin dregst saman á einkamarkaði til að hleypa lífi í opinbera eftirspurn. Kemur til greina að mati hv. þingmanns að auka jafnvel skuldir hins opinbera til að ráðast í ákveðnar framkvæmdir?

Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvaða skattalækkanir telur hv. þingmaður að sé skynsamlegast að ráðast, í ef hann hefur það á takteinum núna í kvöld? Ég get vel skilið að það krefjist frekari ígrundunar en hér.