138. löggjafarþing — 115. fundur,  29. apr. 2010.

samgönguáætlun fyrir árin 2009-2012.

582. mál
[16:14]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Þegar umræðu um samgönguáætlun 2009–2012 er að ljúka, er mér efst í huga þakklæti til þeirra fjölmörgu þingmanna sem hafa tekið þátt í þessari afar góðu umræðu um samgönguáætlun. Auðvitað eru skiptar skoðanir um hvað á að fara í og hvað ekki. Mér finnst hins vegar að umræðan, eins og ég sagði áðan, hafi verið afar góð og fróðleg og hafa margar skoðanir komið fram en líka mikill stuðningur við það sem sett er fram. Alltaf er það þannig að við viljum gera meira. Núna er staðan hins vegar þannig að við höfum úr þessu fé að spila sem hér er sett inn og þurfum að vinna út frá því. Fyrir það vil ég þakka alveg sérstaklega, virðulegi forseti, þessa góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað.

Eins og ég sagði áðan lít ég ekki svo á að um kjördæmapot sé að ræða þegar einstakir þingmenn ræða um framkvæmdir í sínum kjördæmum. Það er einfaldlega vegna þess að sérþekking þeirra er mest þar, þeir kunna og þekkja best til, funda með íbúum og sveitarfélögum og færa umræðuna hér inn. Það er nákvæmlega sama og ég geri sjálfur. Hlusta á hvað þingmenn í viðkomandi kjördæmum segja og hvað samtök sveitarfélaga á viðkomandi svæðum segja.

Virðulegur forseti. Á þessum 10 mínútum sem ég hef eftir, eða átta núna, langar mig að fara í gegnum nokkur atriði sem ég hef ekki getað svara í nokkrum andsvörum mínum. Ég tek þau hérna eins og það kom fram.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði mig um Fróðárheiði. Ég gat ekki svarað því áðan, en nú hef ég hins vegar svörin. Hönnun á síðustu fimm kílómetrum norðanmegin stendur yfir. Ekki var farið í hana vegna mikilla hækkana eftir að við settum hana inn sem flýtiframkvæmdin 2008. Það er ekki rétt að þetta sé eina verkið sem hefur dregist, líka framkvæmdin um Öxi. Það sem er verra í þessu svari er að áætlað er að framkvæmdin við þessa fimm kílómetra kosti 900 millj. kr. Ég vona að þetta svari hv. þingmanni og ég sé búinn að svara öllu sem hér kom fram úr hans mjög svo málefnalegu og góðri ræðu.

Hv. þingmaður Sigurður Ingi Jóhannsson spurði um sjóvarnargarðinn í Vík. Á síðustu dögum fjárlagagerðarinnar beitti ég mér fyrir því að settur yrði peningur í hann. Það var samþykkt í ríkisstjórn að setja pening þar inn. Ég kynnti mér málið og vissi að verktakar biðu spenntir eftir því verki. Ég var sannfærður um að við hefðum fengið mjög góð tilboð í vinnu við að sprengja grjótið og geyma það í vetur. Þess vegna var þetta sett inn. Því kom mér mjög á óvart þegar ég átti samtal við sveitarstjórann rétt þar á eftir, verkið var ekki tilbúið vegna skipulagsmála. Það er ekki tilbúið enn þá. En peningurinn er þarna inni.

Ég þakka sérstaklega hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur hvernig hún fór í gegnum ræðurnar sínar. Þó vegakerfi á Vestfjörðum hafi aðeins minnkað í seinna andsvari, það er hið besta mál. Sem betur fer er ekki 46% af vegum á Vestfjörðum sem eftir á að laga, en eins og hún setti það upp og sameinaði sóknaráætlun, ég get tekið undir allt sem hefur verið sagt um samgönguleið milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Eins og hún sagði: Tvær klukkustundir á sumrin, meðan fært er um Dynjandisheiði og Hrafnseyrarheiði, sex tímar á vetrum. Þetta er auðvitað óásættanlegt. Að minni tillögu voru Dýrafjarðargöng sett inn, sem við þurfum því miður, eins og svo mörg önnur verk, að færa aftar í röðina. Ég endurtek það sem ég sagði áðan: Dýrafjarðargöng eru það mikilvæg í þessu verkefni að þeirra mun fljótlega sjá stað í langtímaáætluninni, ef það verður ekki í endurskoðaðri stuttu áætluninni. Það er hins vegar 6 milljarða kr. verk, eins og það sem eftir er af malardraslvegunum á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég vil koma þeim í varanlegt horf, það kostar 6–7 milljarða kr. og Dynjandisheiðin er í kringum 5 milljarða kr. Þetta er í kringum 20–22 milljarða kr. verkefni.

Ég þakka hv. þingmanni og öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis fyrir umræðuna hér. Hvernig þeir ræða um verkið og ég heyri samhljóminn sem og skynja áhersluna sem lögð er á sunnanverða Vestfirði og klára það sem fyrst. Auðvitað tala margir um að við hefðum þurft að vera í Dýrafjarðargöngum í leiðinni. Ég er sammála því. Það settum við fram í viðaukann, en það því miður gekk það ekki eftir vegna ástæðna sem ég hef sagt frá áður, niðurskurður á framkvæmdafé, miklu dýrari verk, eða allt að 66% dýrari nú heldur en var 2007. Þess vegna þurfum við að færa verk aftar, ekki koma inn peningar til að greiða það.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir gerði að umtalsefni það sem sett er inn í áætlunina hér á höfuðborgarsvæðinu, sem ég er ákaflega stoltur af að sé sett inn. Það eru miklar framkvæmdir eins og bætt umferðarflæði, almenningssamgöngur, hjóla- og göngustígar, göngubrautir, undirgöng og annað upp á tæpa tvo milljarða kr. árin 2011 og 2012. Þetta eru verk sem við munum áfram vinna í samvinnu við Reykjavíkurborg, t.d. sérstakar strætóaðreinar og annað slíkt. Ég er sannfærður um að við munum gera miklu meira úr þessum peningum. Verkin sem farið verður í munu skila mjög miklu eins og þau verk sem unnin voru í fyrra og verða unnin í ár hafa gert.

Hv. þm. Árni Johnsen ásamt fleirum, Róberti Marshall og öðrum, spurði um Grænás. Það útboð verður eftir fjórar til sex vikur.

Talað var um margt annað, hv. þingmaður spurði um Suðurstrandarveg. Jú, það er alveg kristaltært að seinni hluti hans fer í útboð seinni hluta þessa árs. Í hvaða mánuði skal ég ekki segja nákvæmlega til um, en við erum með 650 milljónir ef ég man rétt, 11–12, til að klára það verk að Ísólfsskála og Herdísarvík. Ég man eftir því 1999 þegar Suðurstrandarvegur var settur inn. Ég var á fundinum þar sem hann var settur inn og ég er ákaflega stoltur af því, ásamt hv. þm. Árna Johnsen, að þetta verk hafi komist í gang. Það var í fyrra eða hittifyrra. Við gerum það viljandi að taka lengri framkvæmdatíma heldur en hægt væri að gera. Það er einfaldlega vegna þess að vegagerðarsvæðið er svo gott og því gott að vinna á veturna meðan við getum ekki unnið á heiðum á veturna. Kaflinn núna er svona tveggja vetra og eins sumarverk. Ég hef ekki svar á reiðum höndum um hver framkvæmdatíminn er á seinni hlutanum.

Ég hef svarað öllu því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur, já og annað hefur komið fram í þessari eins og ég segi ágætu umræðu. Mörgu hef ég reynt að svara í stuttum andsvörum.

Ég vil ítreka það, virðulegi forseti, í lokin að við erum með takmarkað fé, sem ég held að sé töluvert mikið fyrir árin 2011 og 2012. Talan er sett fram þó langtímafjárlög séu ekki til. Við vonum að þetta standist. Þegar samgöngunefnd verður búin að ljúka yfirferð um samgönguáætlun og hv. Alþingi búið að samþykkja hana, vegna þess að hv. þm. Árni Johnsen ræddi um að það vantaði framkvæmdaverk fyrir verktaka, munum við fara í ný útboð fyrir verk sem hefjast strax í upphafi næsta árs (Gripið fram í.) — vinna tíma. En hv. þingmaður þarf með öðrum orðum að vinna hratt og vel. Ég er alveg viss um það verði gert í samgöngunefnd eins og hennar er von og vísa og gert er í öllum málum sem þangað koma, en þannig að við klárum þetta áður en þing fer heim. Þá geta útboðin farið í gang, vegna þess að hér er stefnumörkun töluverð fyrir 2011 og 2012. Það hefur komið fram, virðulegi forseti, að áætluð verk sem eru í gangi munu taka til sín einn og hálfan milljarð á næsta ári og þau verk sem eru í gangi eru aðeins um 500 millj. árið 2012. Okkur liggur á að koma verkum í útboð, skapa vinnu og koma verkum í gang. Þess vegna er þetta sett inn og það getum við gert strax eftir að áætlunin hefur verið samþykkt, þó eins og ég segi, við verðum alltaf að hafa þann fyrirvara á að verkin geta ekki hafist fyrr en í upphafi næsta árs. Búið er að sprengja þetta ár með þeim peningum sem við höfum með þessum 11,5 milljörðum, vegna verka sem eru í gangi.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það enn einu sinni, ég þakka hv. þingmönnum fyrir þessa ágætu umræðu. Nú gengur þetta mál til hv. samgöngunefndar þar sem verður farið í gegnum það. Ráðuneytisfólk auðvitað, Vegagerð og aðrir eru reiðubúin að koma til nefndarinnar með allar þær upplýsingar sem þarf. Ég hef fulla vissu fyrir því, hef kynnst samgöngunefnd það vel, að þarna verður rætt um og farið í gegnum þetta vel, hratt og örugglega. Við munum svo fá þessa þingsályktun til seinni umræðu hér á hinu háa Alþingi, hvort sem það verður í lok maí eða byrjun júní, en að hún verði svo samþykkt þannig að við komumst eins og ég segi áður til útboðsverka.

Ég ítreka þakkir fyrir mjög góða og málefnalega umræðu hér í dag.