144. löggjafarþing — 115. fundur,  29. maí 2015.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

770. mál
[15:11]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni aftur fyrir seinna andsvarið.

Já, í upphafi skyldi endinn skoða, það er svo. Ég er afar jákvæð og bind miklar vonir við þann endi af því að við erum farin að sjá verulega fjármuni setta í samgöngumál þó að maður vilji auðvitað alltaf sjá meira. En ég er afar spennt og jákvæð fyrir því hvernig endirinn verður, ég vil vera bjartsýn á það.

Varðandi veggjöld — ég get alveg tekið undir það sem hv. þingmaður heldur fram að auðvitað hafa sveitarfélögin jafnvel hagnast eitthvað á því að fá Hvalfjarðargöngin. En fólk horfir alltaf svolítið í það hvað það hefur á milli handanna hverju sinni, hvað maður hefur í ráðstöfunartekjur og veltir því öllu fyrir sér frá mánuði til mánaðar.

Varðandi gjaldtöku almennt, og hann nefnir Vestfirði í því samhengi, þá get ég sætt mig við hóflega gjaldtöku ef önnur trygg leið er til staðar sem ekki er mjög löng. Ég get ekki sætt mig við gjaldtöku í tilfelli Vestfjarða — eða ég held ekki, ég er bara að hugsa þetta akkúrat núna — því að þar eru verulega langir vegarkaflar og ekkert val um annað en að leggja þá á sig dagsferðalag til að komast á milli staða. Fljótt á litið og án þess að vera búin að hugsa þetta alla leið held ég að mér mundi ekki hugnast veggjald á þeim slóðum.