149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

afnám krónu á móti krónu skerðingar.

[10:04]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom inn á í máli mínu áðan liggur ljóst fyrir að við höfum 2,9 milljarða til ráðstöfunar á þessu ári til að bæta kjör örorkulífeyrisþega. Hugsunin á bak við þetta frumvarp er að stíga fyrstu skrefin til afnáms skerðinga og það er svo sannarlega gert. Ég held að ég og hv. þingmaður hljótum að geta verið sammála um að hér sé jákvætt skref stigið. Hins vegar, eins og ég kom inn á áðan, stendur fyrir dyrum að leggja fram frumvarp á næsta löggjafarþingi sem miðar að því að innleiða nýtt almannatryggingakerfi. Þá munum við geta fullmótað hvernig einstakir greiðsluflokkar sem um ræðir — vegna þess að króna á móti krónu skerðing er jú aðeins á ákveðna flokka — hvernig kerfinu verður háttað til framtíðar og hvernig víxlverkanir verða í því. Það mun koma í ljós þegar við leggjum það frumvarp fram og við þá frumvarpsvinnu. En ég held við hljótum að geta fagnað því að hér er svo sannarlega stigið (Forseti hringir.) skref til afnáms skerðinga og hvata til að sækja vinnu, skref sem allir ríkisstjórnarflokkarnir boðuðu. (Forseti hringir.) Við munum halda áfram á sömu braut og hvetja fólk til aukinnar þátttöku á atvinnumarkaði.