149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

útflutningur á óunnum fiski .

[10:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Útflutningur á óunnum fiski fer vaxandi. Einnig færist það í vöxt að stórar útgerðir yfirbjóði á fiskmörkuðum fisk sem síðan er fluttur óunninn til vinnslu í öðrum löndum með þeim afleiðingum að fiskvinnslur hér á landi, sem treysta á að geta keypt hráefni á fiskmörkuðum, verða undir. Um allt land eru fiskvinnslur í þessari stöðu og eru í rekstrarvanda vegna hráefnisskorts og yfirboða þeirra stærri og stöndugri. Sumar þeirra verða að segja upp fólki og jafnvel hætta rekstri ef svo fer fram sem horfir. Efast má um að hér fari saman hagkvæmni stærðarinnar og þjóðarhagur.

Ég vil spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessari þróun og hvort samtal hafi átt sér stað um stöðuna við ráðherra byggðamála og ráðherra vinnumarkaðsmála um þróun byggða og fækkun starfa vegna þessa. Einnig vil ég spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hafi farið yfir það með hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hver virðisaukinn af unnum fiski til útflutnings er samanborið við þann virðisauka sem skapast við útflutning á óunnum fiski, áhrif á landsframleiðslu og tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það með mér að hér sé á ferðinni óheillaþróun og að finna þurfi lausn ef fiskvinnslur sem treysta á fiskmarkaði eiga að lifa af?