149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:12]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við byrjuðum aðeins að tæpa á þessari hugmynd í andsvörum við fyrstu ræðu hjá mér. Þar nefndi ég að þetta óvissusvigrúm ætti jafnvel að ganga í báðar áttir, að ef meðalhagvöxturinn er eitthvað í kringum 2–3% sé vel hægt að miða við þann meðalhagvöxt í þeim afgangi sem ríkissjóður ætti að skila, 2%, kannski 1% eða eitthvað svoleiðis sem er viðmiðunarreglan sem við erum að taka. Fyrir hvert aukaprósent sem hagvöxturinn eykst umfram þær spár erum að skila kannski 0,5% aukalega í afkomu og sama niður á við, þá er ákveðið svigrúm til að fara niður og skila engum afgangi þrátt fyrir að samdráttur sé í efnahagskerfinu.

Ég held að þetta gæti verið ágætisþumalputtaregla þó að hún sé ekki endilega bundin í lög um opinber fjármál nema kannski einhvers konar viðmið af því að við myndum líka kannski vilja aðeins geta sveiflað okkur innan þess, að það sé líka ákveðið svigrúm í kringum meðalhagvöxt, upp á ákveðna efnahagsstjórn líka. Stundum myndum við vilja fara aðeins umfram og stundum í aðeins minni hagvöxt og það er stefnan sem slík, að grundvallarþumalputtareglan sé að það sé einhvers konar hámarks- og lágmarksviðmið umfram hagspár, sem sagt fyrir ofan eða neðan hagspá sem skili þá auknum afgangi eða minni afgangi eftir því sem við færum í kringum hagspána. Ef við byrjuðum þar gætum við kannski átt pælinguna í framhaldinu.