149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir andsvarið. Það er afskaplega gleðilegt að hann skuli vera hér og koma í andsvar við mig. Jú, það er akkúrat rétt hjá þér, hv. þingmaður, að ég spurði hvort nauðsynlegt hefði verið að stokka upp stefnuna eins og hún leggur sig vegna þess að ég hefði viljað sjá öðruvísi aðgerðir. Ég hefði viljað sjá að við hefðum reynt að sækja fjármagn annað til þess að mæta þessum 40–46 milljarða aukaútgjöldum sem spáð er á hverju ári næstu fimm árin, ef ég skil það rétt, nánast út allan tímann, þannig að auðvitað hefði það verið best.

En mér finnast hugmyndirnar um hvernig skuli sækja fjármagn frekar rýrar. Ég tel að það muni eðli málsins samkvæmt bitna á þeim sem síst skyldi. Það sem ég óttast mest er nákvæmlega það sem ég sagði: Þeir sem höllustum fæti standa hér verða virkilega látnir finna fyrir því, því miður, vegna þess að hver einasta króna sem skert hjá af þessum þjóðfélagshópum sem ég er að berjast fyrir, er einni krónu of mikið því að þeir geta ekki tekið hana á sig. Það er ekki hægt.

Aftur á móti eru úti í samfélaginu milljarðamæringar með milljarðamilljarðatrilljarðafyrirtæki sem gætu tekið það á sig að aðstoða okkur nákvæmlega núna á meðan við erum að berjast upp úr þessum öldudal. Það er það sem ég hefði viljað sjá áður en farið væri í að taka upp fjármálastefnuna, sem hefði verið gott að geta haldið áfram með, því að ég kalla þetta ekki náttúruvá eða eitthvert ógnarfall, eins og koma þarf til, að mér skilst, til þess að eðlilegt sé að stokka upp fjármálastefnuna eins og hún leggur sig. Ég hefði gjarnan vilja sjá þetta öðruvísi ef þess hefði verið nokkuð kostur.

En jú, það er rétt, hv. þingmaður, ég sagði einmitt nákvæmlega þetta: Stokka upp stefnuna eins og hún leggur sig.