149. löggjafarþing — 115. fundur,  3. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[22:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni um þingsályktunartillögu um endurskoðun á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Hafa ber í huga í þessu öllu saman að þessi stefna er rétt rúmlega ársgömul og má ljóst vera að málið átti ekki að koma ríkisstjórninni á óvart, þ.e. að endurskoða þyrfti stefnuna, vegna þess að ýmsir mikilvægir umsagnaraðilar, eins og fjármálaráð og Viðskiptaráð, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins vöruðu við því að góðærið gæti tæplega haldið áfram og því væri ástæða til mun meiri varkárni við gerð fjármálaáætlunar en gert var af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin kaus að horfa fram hjá því sem hún hafði verið vöruð við af þeim sem best til þekkja.

Ljóst má því vera að ríkisstjórnin bjó ekki nægilega vel í haginn heldur kaus að trúa því að hagvaxtarskeiðið myndi í raun og veru ekki taka enda þrátt fyrir eitt lengsta hagvaxtarskeið í sögu efnahagsmála hér á landi. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra í viðtali nýverið, að ríkissjóður hefði hlutverki að gegna þegar dregur saman í efnahagslífinu og að það væri jákvætt að auka við opinbera fjárfestingu í samdrætti, ég held að við getum öll verið sammála um það, ég kom m.a. inn á það í andsvari, og að sama skapi að ríkissjóður haldi að sér höndum þegar vel gengur í efnahagslífinu.

Á toppi hagsveiflunnar var hins vegar ekkert lát á útgjöldum hins opinbera. Fyrir rétt rúmu ári síðan þegar við ræddum fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar til fimm ára gætti mikillar bjartsýni á ríkisstjórnarheimilinu. Áframhaldandi uppsveifla, áframhaldandi útgjaldastefna og ríkissjóður rekinn með afgangi. Það var þema þeirra stefnu. Hingað erum við svo komin 14 mánuðum síðar að ræða nýja fjármálastefnu þar sem tekjur dragast verulega saman og ríkissjóður verður rekinn með halla næstu fjögur árin. Þannig að umskiptin eru veruleg á örskömmum tíma. En það sem vekur mesta athygli við þessa nýju fjármálastefnu er að strax á næsta ári á allt að vera komið í lag að mati ríkisstjórnarinnar, að mati þessarar sömu ríkisstjórnar og hlustaði ekki á varnaðarorð sérfræðinga fyrir ári síðan. Mér virðist hún heldur ekki vera að hlusta núna.

Margt bendir til þess að samdrátturinn í ferðaþjónustunni verði dýpri og meiri en spár gera ráð fyrir. Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar hefur sagt nýverið að fram undan sé mun skarpari niðursveifla í ferðaþjónustunni en áður var talið.

Í þjóðhagsspá Seðlabankans, sem kom út í lok síðasta mánaðar, var hagvaxtarspá bankans lækkuð og gerir Seðlabankinn ráð fyrir 0,4% samdrætti hagkerfisins á þessu ári. Greiningardeild Arion banka er hins vegar mun svartsýnni á þróun efnahagsmála hér á landi en aðrir greinendur, þar á meðal opinberar hagstofnanir. Í spá Arion banka er gert ráð fyrir að hagkerfið dragist saman um 1,9% á þessu ári. Það sem vekur athygli við spá Arion banka er að það verði því minni hagvöxtur á næsta ári en opinberir aðilar spá.

Á þenslutímum á að koma í veg fyrir að útgjöld aukist í takti við vaxandi skatttekjur vegna meiri efnahagsumsvifa. Þannig myndast meiri afgangur hjá hinu opinbera með því að taka hann til hliðar úr hagkerfinu og draga úr heildareftirspurn. Þannig er hægt að snúa dæminu við á samdráttartímum eins og nú. Skatttekjur dragast saman en hægt er að halda útgjöldunum föstum. Með þeim hætti skapast halli sem vinnur á móti samdrætti í eftirspurn.

Herra forseti. Ekki hefur komið í ljós hvort fjármálaráð telji að komið sé að þeim tímapunkti að leggja fram nýja fjármálastefnu. Þangað til er í raun og veru ekki hægt að dýpka umræðuna nægilega, sem ég hef nú talað fyrir, (Forseti hringir.) en ég sé að tíminn er liðinn.