149. löggjafarþing — 115. fundur,  4. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[00:25]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur prýðisræðu. Ég ætla að vera á þeim nótum sem snúa að forsendum. Hv. þingmaður segir réttilega að forsendur hafi ekki staðist fyrir þessari stefnu og bætir við að það sé ekkert að því að endurskoða stefnu. Það er einmitt það sem verið er að gera hér, verið er að endurskoða gildandi stefnu. Maður kann þá að segja í kjölfarið að þrátt fyrir allt, og hv. þingmaður fór yfir það að Viðreisn hafi stöðugt varað við því að stefnan byggði á sandi, eða hvernig sem hv. þingmaður orðaði það, að þetta hefðu verið veikar forsendur, voru þetta engu að síður þær hagspár sem við var að styðjast.

Nú hafa þessar forsendur breyst mjög snögglega og ég er sammála hv. þingmanni um að það er bæði skynsamlegt, eins varðandi þessar áskoranir, að virða grunngildin, að endurskoða stefnuna, og geta þá með markvissum hætti brugðist við án þess að fara gegn grunngildum eða raska jafnvægi í efnahagslífinu og ýkja ekki hagsveifluna. Stóru tíðindin í þessu eru í raun að verið er að treysta umgjörðina, og að hluta til hefur það verið gagnrýni Viðreisnar.

Hér er óvissusvigrúm byggt inn í stefnuna og með því bregðumst við við gagnrýni, m.a. fjármálaráðs, í gegnum tíðina að vera ekki alveg í gólfi stefnunnar og í þessari spennitreyju sem svo er kölluð.

Ég er ekki með neina beina spurningu (Forseti hringir.) en segi að það hljóti að vera skynsamlegra að hafa stefnu og endurskoða hana til að geta brugðist markvisst við þegar forsendur bresta.