139. löggjafarþing — 116. fundur,  3. maí 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[18:22]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að umræða um þetta hefur verið tekin upp í þingflokki Vinstri grænna, að gefnu tilefni. Við höfum litið til Norðurlandanna og annarra ríkja eftir því hvernig þau vinna úr sínum málum og skipta verkum með ráðherrum. Það er sú umræða sem við höfum tekið upp og komist að þessari niðurstöðu. Það voru engar athugasemdir gerðar við það þá.

Ég vek athygli hv. þingmanns á því að foringjaræðið sem mikið er talað um er dautt í þinginu. (ÁsbÓ: Nú?) Hingað koma allir ráðherrar, hver og einn, með sín mál, leggja þau fyrir þingið, þau fara í nefndir og ég þori eiginlega að fullyrða að ekki eitt einasta frumvarp sem hefur verið lagt inn eftir 1. febrúar 2009 hefur farið óbreytt út úr þinginu. Þvert á móti hafa verið gerðar mjög efnismiklar breytingar á flestum þeim frumvörpum sem hér fara í gegn. Það er engin mótsögn fólgin í því að við, þingflokkur Vinstri grænna, styðjum framlagningu þessa frumvarps og að við teljum nauðsynlegt að ná þeim markmiðum sem sett eru með þessu frumvarpi um betri stjórnsýslu og meiri sveigjanleika í Stjórnarráðinu. Við viljum hins vegar fá tækifæri til að ræða betur hvernig þau markmið nást. Til þess, hv. þingmaður, er Alþingi, til þess er hv. allsherjarnefnd, til þess munum við kalla eftir upplýsingum, ábendingum og athugasemdum utan úr þjóðfélaginu og fara yfir hlutina.

Varðandi þau stóru ráðuneyti sem hafa verið búin til á undanförnum mánuðum verð ég að segja að ég tek undir það sem haft er eftir Rögnu Árnadóttur, fyrrverandi hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra, að það er takmarkað hvað einn maður kemst yfir að hafa yfirsýn (Forseti hringir.) yfir mörg mál. Þess vegna held ég að við ættum með þessum stóru ráðuneytum að opna á þann möguleika að koma á aðstoðarráðherrum eða skipta (Forseti hringir.) ráðuneytum upp til fleiri ráðherra.