150. löggjafarþing — 116. fundur,  12. júní 2020.

fsp. 3.

[14:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Það er ekki svo að Vinnumálastofnun hafi ekki greitt út miklar fjárhæðir, hún er búin að greiða út tugi milljarða. Það varð aukning úr 10.000 í 50.000 umsóknir og hv. þingmaður nefnir að það séu 6.000 sem ekki hafa fengið greitt. Það þýðir að það eru 34.000 einstaklingar sem hafa fengið greitt frá stofnuninni. Það er hins vegar mikilvægt að stofnunin geti farið yfir umsóknir og afgreitt þær, geti klárað að afgreiða þær vegna þess að við viljum heldur ekki að einstaka fólk lendi í því að fá bakreikning. Við erum að gera það sem við getum og höfum bætt inn í stofnunina 30–40 stöðugildum. Við krefjandi aðstæður er farið í gegnum allar umsóknir og það næst að afgreiða þær og ég verð að segja eins og er að það hefur almennt gengið vel. Það eru ákveðnir hnökrar en það er að nást að vinna það niður. Þetta er skelfilegt fyrir þá einstaklinga sem eiga í hlut en hins vegar er mikilvægt að við höldum okkur við það ferli sem ákveðið er á Alþingi að fara eftir þegar verið er að vinna umsóknir um atvinnuleysisbætur og annað. Það hefur stofnunin gert en ég held að alltaf sé hægt að gera betur.