153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

ný vatnslögn til Vestmannaeyja.

[15:46]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að ítreka að það eru auðvitað sérstakar aðstæður uppi í þessari öflugu byggð og öfluga sveitarfélagi í Vestmannaeyjum með sterkan fjárhag sem eðlilegt er að horfa til þegar kemur að almannavörnum en líka ekki síður rekstraröryggi bæði fyrirtækja og heimila, hvort sem lýtur að rafmagni, sem heyrir reyndar ekki undir mig eða innviðaráðuneytið heldur önnur ráðuneyti — varðandi vatnsveiturnar þá höfum við í ríkisstjórn rætt það mál. Við fjármálaráðherra munum væntanlega útbúa einhvers konar viljayfirlýsingu um aðkomu að þessu. Ég ítreka líka að það eru sveitarfélögin sem sjá um almenningsveitur í hverju sveitarfélagi fyrir sig og á sínu svæði. Ég veit að geta sveitarfélagsins Vestmannaeyja, með öflugt veitufyrirtæki til að leggja þessa lögn, verður næg. Við munum síðan skoða hvaða stuðning við getum komið með inn í verkefnið. Öll munum við, held ég, vonast eftir því að ekki neinar náttúruhamfarir gangi yfir sem munu fara í þá veru sem hv. þingmaður var að vísa til.