Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 116. fundur,  5. júní 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

987. mál
[16:56]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni enda held ég að ég hafi farið ágætlega yfir það í tengslum við þetta nefndarálit minni hlutans að við getum ekki sætt okkur við að verið sé að setja sérstök lög um heilbrigðisstarfsmenn til að reyna að laða þau að, af því að við þurfum á þeim að halda, ef við ætlum ekki að bjóða þeim sömu kjör og öðrum, þeim sem yngri eru. Þau fá sömu laun en ekki sömu kjör þegar á heildina er litið vegna þess að lífeyrisgreiðslurnar eru skildar eftir. Við hvetjum til þess í nefndarálitinu að þetta verði skoðað heildstætt fyrir alla ríkisstarfsmenn, og þá um leið auðvitað þingmenn. Ég get bara tekið undir það að þetta er óréttlátt.

Við skulum aðeins horfa aftur í tímann. Hvað varð til þess að 70 ára aldurinn var valinn? Hvenær var það gert og hver var þá meðalaldur fólks á Íslandi? Meðalaldur fólks hefur hækkað og fólk sem er 70 ára og eldra getur verið með fulla starfsgetu. Það er skrýtið að heimta það í manneklunni, og þetta á líka við um önnur umönnunar- og félagsstörf, ekki bara fyrir heilbrigðisstarfsmenn, að setja það í lög að það verði bara að segja þeim upp jafnvel þó að starfsgetan sé í fínu standi og nauðsyn og vilji sé hjá starfsmanninum til að vinna áfram, og þó að starfið sé mikilvægt og kalli á kraftana.