138. löggjafarþing — 116. fundur,  30. apr. 2010.

strandveiðar.

[12:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. En ég held hins vegar að nú sé ekki tími til að skoða málið, nú þurfa menn að fara að gera eitthvað. Nú er staðan þannig á landsbyggðinni, í sjávarbyggðunum, að þar er allt stopp. Þar hrúgast fólk á atvinnuleysisbætur, hvort heldur sem það eru sjómenn eða fiskverkafólk. Aðstæðurnar í þjóðfélaginu eru þannig ef við ætlum að komast á lappirnar aftur stendur valið um að auka verðmæti í landinu eða fara að skera mikið niður. Þá munu þingmenn og hæstv. ráðherra standa frammi fyrir því að ef menn vilja ekki bæta við aflaheimildir og skapa störf og gjaldeyri munu menn þurfa að fara að loka spítölum eða skólum. Það er valið sem við höfum. Fyrst menn hafa þessi rök fyrir því að hægt sé að bæta við aflaheimildir án þess að ganga á stofninn skil ég ekki þessa ákvarðanafælni hvað það varðar. Og bara til að árétta það er atvinnuleysið úti á landsbyggðinni að stoppa allt. Það er verið að segja upp fjölda af fólki og þetta er gríðarlega alvarleg staða. Ef menn ætla að skoða þetta og spá og spekúlera eitthvað í þessu og láta einhverja aðra skoða þetta (Forseti hringir.) vil ég benda hæstv. utanríkisráðherra á að þeir stjórna landinu. Það er mjög mikilvægt að menn geri það með reisn þessa dagana en láti ekki einhverja aðra vera að skoða einhverja hluti sem koma til álita einhvern tíma seinna (Forseti hringir.) þegar allt er stopp.