140. löggjafarþing — 116. fundur,  8. júní 2012.

veiðigjöld.

658. mál
[21:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir að hafa minnst sérstaklega á hv. þm. Magnús M. Norðdahl í þeirri 40 mínútna ræðu minni en ef svo er hef ég örugglega ekki talað illa um hv. þm. Magnús M. Norðdahl. Ég hef hins vegar hugsanlega talað illa um þá stjórnmálastefnu sem hann aðhyllist og ég mun gera það hvenær sem mér dettur í hug og skammast mín ekkert fyrir það því það er allt satt og rétt.

Ef hv. þingmaður ætlar að fara í einfalda stærðfræði þá á hann auðvitað að fara rétt með, hér er ekki um tekjuskatt að ræða. Ef hann vill ekki hlusta á ræðuna sem ég flyt verður hann alla vega að hlusta á andsvörin þar sem ég svara nákvæmlega því sama.

Síðan getur hv. þingmaður gert eitt og ég vona, virðulegi forseti, að hv. þingmaður móðgist ekki þó ég vísi til þess að hann þekki vel til ASÍ, ég vona að ekki sé móðgun í því. Ég hvet hv. þingmann til að lesa umsögn ASÍ um frumvarpið. Ef hv. þingmaður gerir það og tekur jafnvel eitthvert mark á þeim umsögnum er til nokkurs unnið og þá verður ljóst að hann mun ekki styðja þetta frumvarp.