154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

innviðir markaða fyrir fjármálagerninga sem byggjast á dreifðri færsluskrártækni.

914. mál
[22:40]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Jú, ég deili jákvæðni og bjartsýni hv. þingmanns í garð þessa máls. Leikbreytir, ég held að þessi tækni sé það nú kannski fyrst og fremst og sannarlega er það mikilvægt og breytir öllu að afnema hindranir fyrir nýsköpun á hvaða sviði sem er. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið þarna og ég get alveg ímyndað mér að ýmsir aðilar líti til smárra svæða líkt og Íslands til þess að gera tilraunir með sínar hugmyndir. Þarna erum við náttúrlega að taka upp regluverk sem gildir víða þannig að það er svo sem ekki kannski sérstaða á Íslandi hvað það varðar en jú, smæðin getur bæði verið kostur og galli. Ég vona svo sannarlega að þetta mál fari í gegn og ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að það sé sannarlega þingmeirihluti fyrir þessu máli. Það er hins vegar þannig að það virðist svo sem ekki alltaf að vera það sem ræður úrslitum um það hvað er klárað hér á þinginu og hvað ekki og er dagskrárvaldið ekki í mínum höndum eða hv. þingmanns þannig að við verðum bara að spyrja að leikslokum hvað það varðar. Ég vona það svo sannarlega.