132. löggjafarþing — 117. fundur,  30. maí 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[15:29]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög frumleg og að mörgu leyti skemmtileg ræða. Hér kemur hv. þm. Jón Bjarnason upp í ræðustól hins háa Alþingis og biður mig um að fara að svara fyrir Framsóknarflokkinn, (JBjarn: … fylgiskjölin.) fylgiskjöl sem samþykkt hafa verið á flokksþingi Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Ég ætla að vona að hv. þm. Jón Bjarnason, með fullri virðingu fyrir Framsóknarflokknum, (Gripið fram í.) haldi nú ekki að ég sé liðsmaður Framsóknarflokksins. (Gripið fram í: Jú.) Svo er ekki, (Gripið fram í: Jú, jú.) ég er ekki framsóknarmaður og hef aldrei verið og mun, frú forseti, líklega aldrei verða framsóknarmaður, með fullri virðingu fyrir þeim flokki. Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt að eftir þessa löngu og ítarlegu ræðu þar sem farið var efnislega yfir mjög mikilvæg mál sem við höfum verið að ræða svo vikum eða mánuðum skiptir þá komi þessi mikli höfðingi hérna, hv. þm. Jón Bjarnason, og biðji mig, þingmann Sjálfstæðisflokksins, að fara að túlka samþykktir Framsóknarflokksins. Það er ekki hlutverk mitt hér, (Gripið fram í.) það eru aðrir hv. þingmenn sem munu túlka samþykktir Framsóknarflokksins og ég bið hv. þm. Jón Bjarnason um að beina spurningum eins og þessum til þeirra en ekki til mín.

Af því að hann talaði um að með frumvarpinu væri verið að einkavæða Ríkisútvarpið hf., þá langar mig til að spyrja hv. þingmann að því hvað þessi setning í 1. gr. frumvarpsins þýði, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið hf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Hvað þýðir þessi setning (Forseti hringir.) að mati hv. þingmanns?