138. löggjafarþing — 117. fundur,  30. apr. 2010.

geislavarnir.

543. mál
[14:47]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson benti mér á undir andsvari hv. síðasta ræðumanns er ég úr suðrinu. Ég er úr Suðurkjördæmi og sólarljósið er mjög gott í suðrinu, ekki kannski undir Eyjafjöllum í augnablikinu, því miður. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið, ég tel að ég hafi komið sjónarmiðum mínum á framfæri í andsvari áðan. En vegna orða hæstv. heilbrigðisráðherra vildi ég þó taka sérstaklega fram að ég er ekki að tala um þetta mál í hálfkæringi. Ég er ekki að gera lítið úr hættunni á krabbameini. Ég er að hvetja til þess að foreldrar verði upplýstir betur um þetta ákveðna mál, um hættuna af útfjólubláum geislum og áhrif þeirra á húð barna. Ég er að hvetja til þess að með fræðslu, með kynningu og aukinni ábyrgð, bæði barna og foreldra, komum við í veg fyrir að börnin okkar verði fyrir skaðlegri geislun, nákvæmlega eins og við látum ekki börnin okkar fá hnífa sem leikföng. Við höfum vit fyrir börnunum okkar með þau atriði sem þau eru ekki dómbær um.

Ég er sjálfsagt flokkuð í hóp frelsisofstækisfólks hjá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og verð bara að taka því en það sem ég vildi vekja máls á er að við getum ekki bannað allt sem er hættulegt. Eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á er það ekki eingöngu í ljósabekkjum á sólbaðsstofum sem útfjólubláir geislar ná til ungmenna. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á að það eru ýmsir sem eiga sólarbekki heima hjá sér, þetta frumvarp tekur ekki til þess. Erum við að bregðast þeim börnum? Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir benti á að sólböðum fylgja útfjólubláir geislar. Eigum við að banna sólböð undir 18 ára? Nei, að sjálfsögðu ekki. Að mínu mati er það jafnkjánalegt að halda að slíkt bann kæmi í veg fyrir að börn undir 18 ára aldri yrðu nokkurn tímann fyrir geislun. Það er það sem ég er að leggja áherslu á í þessari umræðu og vil gjarnan að það viðhorf mitt verði ekki tekið og snúið út úr því. Ég tel það fullgild rök í málinu að við getum ekki komið í veg fyrir geislun með banni. Það er sjónarmið mitt í þessu máli.

Ég get, alveg eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, hlegið að því að fermingartilboð hafi verið í gangi í sólbaðsstofum. Mér finnst það fáránlegt. Mér finnst það algjörlega fáránlegt, sérstaklega í ljósi þess að okkur eru að verða æ betur ljósar hætturnar af þessu. Það breytir ekki því að það er skylda mín og skylda foreldra að sjá til þess að börn verði ekki fyrir þessum skaðlegu geislum. Það mun ekki koma til með að útrýma hættunni að setja boð og bönn. Þar er bara grundvallarmunur á lífsskoðun minni og lífsskoðun hæstv. ráðherra og hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir talaði um þau bannmál sem orðið hafa að lögum að undanförnu, hún nefndi vændi, súludansinn og vísaði í reykingar á skemmtistöðum. Vændi er mjög slæmt. Súludans er mér alls ekki hugnanlegur. Ég sakna þess ekki að ekki sé reykt á skemmtistöðum. En af hverju, með sömu rökum og hv. þm. talaði um hér áðan, voru reykingar þá ekki bannaðar alveg? Jú, það er kannski vegna þess að fólk áttar sig á því að löstur er ekki glæpur. Fólk verður á einhvern hátt að fá að taka ábyrgð á gjörðum sínum.

Ég er algjörlega ósammála hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Í frumvarpinu er hrein forræðishyggja vegna þess að það er verið að banna hlut sem öllum ætti að vera ljóst, ef þeir fengju næga fræðslu um það, að er skaðlegur börnum og unglingum. Þá ættum við að koma í veg fyrir það með því að foreldrar taki ábyrgð á börnum sínum til 18 ára aldurs, eins og þeir eiga að gera samkvæmt lögum. Það er í mínum huga mjög einfalt.

Ég vildi koma þessum sjónarmiðum hér á framfæri vegna þess að ég vil ekki að hæstv. ráðherra haldi að ég sé að tala um þetta mál í hálfkæringi þó að ég hafi talað um stóra ljósabekkjamálið og ljósabekkjalögguna. Ég er bara að benda á að þetta mun ekki útrýma hættunni sem börnum og unglingum stafar af útfjólubláum geislum.

Mér láðist að benda á eitt atriði í andsvari mínu áðan. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekkert Norðurlandanna hefur stigið þetta skref. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra, vegna annars máls sem við höfum átt orðastað um, nefnilega staðgöngumæðrun, til að stíga það skref sem hæstv. ráðherra gerir hér og verða fyrst Norðurlandanna til að heimila hana.