151. löggjafarþing — 117. fundur,  13. júní 2021.

þingfrestun.

[01:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrir hönd okkar alþingismanna færa forseta og varaforsetum bestu þakkir fyrir samstarfið á kjörtímabilinu. Ekki síst vil ég þakka forseta fyrir samstarfið við okkur þingflokksformenn. Þetta þing hefur sannarlega verið óvenjulegt vegna Covid-19 og mjög hefur reynt á forseta og starfsmenn þingsins sem hafa sýnt mikla hugkvæmni við að leita nýrra lausna til að halda þingstörfum gangandi.

Í þeim hópi alþingismanna sem hafa ákveðið að sækjast ekki eftir endurkjöri er sá þingmaður sem á sér nú lengstan feril á Alþingi, hv. 2. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Það eru vissulega tímamót þegar forseti Alþingis og þingmaður til 38 ára kveður Alþingi. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur sannarlega sett svip sinn á störf Alþingis þá tæpu fjóra áratugi sem hann hefur átt hér sæti. Hann hefur ætíð notið álits sem ræðuskörungur og verið aðsópsmikill og dugmikill þingmaður og ráðherra. Hann er líka manna skemmtilegastur á góðum stundum, mikill sagnamaður og hagyrðingur. Á þeim 12 árum sem ég hef setið á Alþingi hef ég átt náið og gott samstarf við hæstv. forseta, bæði í ríkisstjórn og sem þingflokksformaður. Ég þakka persónulega fyrir það.

Ég veit að ég mæli fyrir hönd okkar allra alþingismanna þegar ég þakka Steingrími J. Sigfússyni fyrir störf hans í þágu þings og þjóðar og óska honum og fjölskyldu hans alls góðs í framtíðinni. Starfsfólki Alþingis vil ég einnig þakka fyrir góð störf, lipurð og fúslega veitta aðstoð. Ég bið þingmenn að taka undir góðar óskir til forseta Alþingis og fjölskyldu hans og þakkir til starfsfólks Alþingis með því að rísa úr sætum.

[Þingmenn rísa úr sætum.]

Takk fyrir.