154. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[23:49]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir hennar fínu ræðu, maður kemur ekki að tómum pokanum þegar maður ræðir málið við hana. En það sem ég er að velta sérstaklega fyrir mér er hin raunverulega staða á markaðnum í dag. Hvers vegna erum við að glíma við það að jafnvel fyrir jólin þá hefði næstum því þurft að grípa til neyðaraðgerða til þess að heimilin í landinu myndu ekki lenda í orkuskorti? Við erum að tala um Ísland og okkar grænu orku sem á að vera hin ótæmandi auðlind. Þannig að ég er að velta fyrir mér, eins og ég talaði um við hv. þingmann áðan, Óla Björn Kárason, framsögumann nefndarálits: Hverjir skyldu nú bera ábyrgð á því að við skulum standa í rauninni á þeim stað að vera að tala um að það sé orkuskortur í landi þar sem er offramleiðni af orku vegna þess að stjórnvöld hafa hreinlega ekki tryggt dreifikerfi raforkunnar? Mig langaði til að spyrja hv. þingmann að því hvort hún tekur undir það með mér og hvernig væri hægt að snúa sér betur í málinu. Við köllum auðvitað eftir því að brenna ekki milljónum lítra á ári af olíu, af jarðefnaeldsneyti, þegar við eigum alveg gnótt af grænni orku. Hvað hefur hv. þingmaður að segja um þetta stjórnleysi undanfarinna ára? Þetta er ekki að gerast í gær og ekki núna í fanginu á þessari akkúrat ríkisstjórn í dag heldur er þetta búið að vera fyrirséð um langan tíma. Hitt: Er réttlætanlegt að fara að líta til kauphallar og markaðsnotkunar á raforkunni okkar og frjálsri sölu og flæði á orkunni okkar innan lands fyrst við komum henni ekki á Evrópumarkaðinn eins og sumir vilja?