154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:17]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á mikilvægu málefni sem varðar auðvitað áfallaþol samfélagsins vegna náttúruvár og viðbúnað stjórnvalda og háskólasamfélagsins við ástandi sem mun vara næstu áratugina. Samfélög nútímans búa við öryggisógnir af ýmsu tagi; vegna stríðsátaka og netárása svo dæmi séu tekin. Þá valda loftslagsbreytingar náttúruhamförum af áður óþekktri stærðargráðu víða um heim. Á þeim tæpa aldarfjórðungi sem liðinn er af öldinni hefur íslenskt samfélag tekist á við stórvægilega ógn við efnahagslegt öryggi, bæði vegna bankahrunsins og síðan vegna heilsufarsvár vegna heimsfaraldurs og í báðum tilfellum voru það ógnir sem teygðu sig yfir landamæri. Það vofir síðan yfir æ meiri öryggisógn vegna skaða sem orðið hefur af ásetningi, hvort sem það er vegna hryðjuverka, skipulagðrar glæpastarfsemi, netárása eða átaka, svo dæmi séu tekin. Öll þessi þróun krefst menntunar, þekkingar og almennrar hæfni til að skilja þær ógnir sem steðja að samtímanum og þær varnir og viðbrögð sem mögulega er hægt að þróa og beita til frambúðar.

Hér á landi búum við mjög vel. Við höfum hæfa og vel menntaða sérfræðinga á ýmsum sviðum sem hafa leiðbeint stjórnvöldum og almenningi í gegnum hamfarir. Ég tel afar mikilvægt að fundinn sé skilvirkur farvegur til að nýta þá þekkingu og reynslu sem hér hefur skapast í að beisla náttúruöflin fyrir næstu kynslóðir sérfræðinga. Og eins og svo oft áður getur reynsla og þekking sem verður til hér á landi orðið að mikilvægri útflutningsvöru, eins og t.d. þekking á beislun jarðhita til húshitunar og orkuframleiðslu. Það er ljóst að á þessum sviðum þurfum við fleiri menntaða sérfræðinga.

Virðulegur forseti. Af lögbundnu sjálfstæði háskóla leiðir að ekki er til þess ætlast að ráðherra háskólamála komi að skipulagi skólastarfs og undirbúningi námsleiða á háskólastigi. Ég tel hins vegar við hæfi að stjórnvöld og Alþingi styðji við frumkvæði háskólanna í að efla nám, eins og á sviði þverfaglegs náms í hamfarafræðum. Frá haustinu 2022 hef ég beitt mér fyrir auknu samstarfi háskóla, að auka þverfaglegt nám, m.a. um nýjar samfélagslega mikilvægar námsleiðir. Nýlega höfum við úthlutað fé úr verkefninu Samstarf háskóla til 35 verkefna fyrir tæplega 1,6 milljarða. Þar á meðal voru verkefni um samfélagslegar áskoranir sem búinn var til hvati um að gera, svo sem um loftslagsmál, heilbrigðisþjónustu, gervigreind og alþjóðlega sókn íslenskra háskóla. Í Markáætlun á sviða vísinda, tækni og nýsköpunar höfum við líka veitt fjármuni vegna samfélagslegra áskorana í þremur málaflokkum: umhverfismálum og sjálfbærni, heilsu og velferð og lífi og störfum í heimi breytinga.

Með þessa reynslu af samstarfi háskóla og þeim hvötum sem búnir hafa verið til innan þess tel ég best fara á því að virkja frumkvæði og samstarf háskólanna í uppbyggingu þverfaglegs náms sem mætti nefna einu nafni hamfarafræði. Ég leitaði einnig til þeirra þriggja háskóla sem koma að námi og rannsóknum á fagsviðum sem hafa tengsl við hamfarafræðina og mig langar að gera stuttlega grein fyrir þeim námsleiðum sem gætu nýst í samstarfi við þverfaglegt nám á sviði hamfarafræða, sem ég vona að háskólarnir sjái líka tækifæri í. Háskóli Íslands býður t.d. upp á nám í eldfjallafræði, jarðfræði, náttúruvá, stjórnun náttúruauðlinda, jarðskjálftafræði, vatnafræði, straumfræði, umhverfisverkfræði og byggingarverkfræði. Hér er fjallað um náttúruvá frá ýmsum sjónarhornum. Þverfaglegur hópur sérfræðinga, sem kom m.a. að byggingu varnargarða í Grindavík, kom að þessum málum. Háskólinn á Akureyri býður upp á sérhæft rannsóknartengt nám á sviði náttúru og samfélags norðurslóða, sem byggt er á reynslu skólans af þátttöku í alþjóðlegu samstarfi, og einnig um nám í heimskautarétti, svo dæmi séu tekin. Auk þess kennir Háskólinn á Akureyri lögreglu- og löggæslufræði. Háskólinn á Bifröst býður upp á nám í áfallastjórnun sem snýr að forvörnum og viðbúnaði, öryggisfræði og almannavörnum, sem er nýtt nám sem byrjar núna haustið 2024. Með auknu samstarfi Háskólans á Bifröst og Háskólans á Akureyri og mögulegrar sameiningar verður möguleiki á að tengja nám í áfallastjórnun, öryggisfræði og almannavörnum við löggæslunámið sem og rannsóknartengt nám. Þarna ætti Háskóli Íslands, með sína grunnþekkingu á náttúruauðlindum, jarðfræði, eldfjallafræði o.s.frv., að koma að, í svona þverfaglegu námi.

Virðulegur forseti. Þriðja spurningin er um útflutningsvöruna og tekjulindina, ég fæ kannski að koma að því hér í lokin, en þar eru ýmis tækifæri. Þá þarf að fara fram umræða um að taka skólagjöld af nemendum utan Evrópu, sem Norðurlöndin hafa nú þegar gert.