154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[12:50]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er einmitt athyglisvert sem hv. þingmaður nefnir, þessi sífellda umræða um orkuskort. Auðvitað er það þannig að sums staðar á landinu upplifir fólk sannarlega orkuskort, t.d. á Vestfjörðum þegar fjarvarmaveiturnar eru skertar og þegar þarf að grípa til bruna á jarðefnaeldsneyti til að fólk geti haldið húsunum sínum heitum. En í stærra samhengi þegar kemur að orkumálunum þá er kannski frekar ástæða til að hafa áhyggjur af því þegar það er ákveðið ójafnvægi á orkumarkaði. Þess vegna þarf að grípa til ákveðinna aðgerða og þar held ég að sé ekkert vitlaust að huga að því hvort hægt sé að nýta betur þá orku sem stórnotendur eru að kaupa og þá líka glatvarmann frá starfseminni og slíkt og hvort ekki megi líka beita markaðslausnum þar (Forseti hringir.) í einhverjum mæli til að tryggja sem besta nýtingu á orkunni. En þá þarf að gera það (Forseti hringir.) vel og vandlega og eftir einhverjum ramma sem tryggir hag neytenda og heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.