154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:37]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili áhyggjum þingmannsins af þessu. Mér finnst þetta vera stór siðferðisleg spurning sem þarf að svara, kannski ekki í dag, en við þurfum að gefa okkur tíma til að ræða slíkar siðferðislegar spurningar.

Mig langar aftur á móti að ræða að eitt er að hafa forgang að orku, annað er að geta nýtt hana, minnugur stöðunnar á Suðurnesjum þegar Njarðvíkuræðin fór og við þurftum öll að fara að kynda húsin okkar með rafmagni. Fyrir fólk sem bjó í einbýlishúsum, það gat bara sett í samband einn pínulítinn rafmagnsofn. Og þá hljótum við auðvitað að velta vöngum yfir því hvort við getum tekið á slíkum aðstæðum eins og þarna komu upp, hvort dreifikerfi innan sveitarfélaganna sjálfra séu með þeim hætti að þau geti nýtt þá raforku sem þau hafa aðgang að. Það kom í ljós að dreifikerfið á Suðurnesjum er bara ekki þess umkomið að takast á við aðstæður sem þessar.