154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[15:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið og þakka hv. þingmanni sömuleiðis fyrir að rifja upp hér þessar yfirlýsingar Miðflokks annars vegar og þingflokks Viðreisnar hins vegar hvað það varðar að styðja við mál sem eru til þess fallin að hraða og ýta undir orkuframleiðslu. Ég held að það sé margt í pólitíska umhverfinu núna sem bendir til þess að það sé að losna um skrúfurnar. Við sjáum yfirlýsingar trúnaðarmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á undanförnum dögum sem ýta undir það að maður telji möguleika á því að einhver ný form meiri hluta verði hér í sal, hvort sem það verður á grundvelli breytinga í ríkisstjórnin eða ekki, það er annað mál. Það eru nokkur mál, sérstaklega á síðasta kjörtímabili, sem voru send hér inn í þingsal sem var vitað að væri ósætti um stjórnarflokkanna á milli og það er ekkert útilokað að það verði látið reyna á slíkt á næsta þingvetri bara í ljósi þess hversu mikið ginnungagap er í raun á milli afstöðu stjórnarflokkanna til m.a. orkuframleiðslu nú um stundir.