154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:20]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi minnst á það áðan að hér hefði ekkert verið gert í þessum málum á undanförnum árum. Ég er ósammála því. Það hefur ýmislegt verið gert varðandi flutningskerfi raforku þó að það komi ekki alltaf skýrt fram hjá öllum í ræðum í þinginu, hvað þó er búið að gera og hverju hefur verið unnið að. Það hefur náttúrlega orðið gjörbreyting á Norður- og Austurlandi að undanförnu varðandi háspennta kerfið í meginflutningskerfinu með tilkomu Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3. Auðvitað er talað fyrir því að halda áfram yfir í Hvalfjörð með Blöndulínu og Holtavörðuheiðarlínurnar. Er þá hv. þingmaður ekki bara í grunninn samþykkur þessum breytingartillögum eins og þær hljóma? Mun hann ekki styðja málið og þær breytingartillögur sem einmitt eru lagðar fram og ættu að styrkja þetta? Þetta ástand verður kannski til vegna þess, eins og við vorum að ræða, að (Forseti hringir.) orkuverð til stóriðjunnar, stóru notendanna, 80%, hefur hækkað (Forseti hringir.) það mikið að það fer að nálgast (Forseti hringir.) það sem heimili landsins og aðrir orkukaupendur eru að greiða.