154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur að þetta frumvarp er ekki svarið við þeim úrlausnarefnum sem þarf að leysa. Ég held að við höfum of lengi verið að spyrja okkur rangra spurninga. Spurningarnar eiga að mínu áliti að vera: Í hvað á orkan sem við öflum að fara? Hvernig viljum við nýta þá endurnýjanlegu orku sem hægt er að afla á Íslandi? Hversu mikla orku viljum við afla og hvert viljum við að hún fari? Það er spurning um atvinnustefnu fyrst og fremst, nokkuð sem er ekki til á Íslandi. Við höfum aldrei sett okkur neina atvinnustefnu sem vit er í. Við verðum að gera það, því að annars mun eftirspurnin bara ráða því hvernig atvinna byggist upp á Íslandi.