154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:30]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í ræðu hér fyrr í dag þá geld ég ákveðinn varhuga við helstu breytingunni sem lögð er til í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar, sem er það að liðka sérstaklega fyrir því að stóriðjan geti endurselt sína orku inn á jöfnunarorkumarkað Landsnets. Ég vil taka það fram að ég er ekki kategórískt á móti því að þetta sé gert í einhverjum tilvikum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum o.s.frv. en það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af hér er að það er ekki bara verið að heimila þetta heldur verða í raun þessar breytingar ekki skildar öðruvísi en svo að verið sé að skikka Landsnet til að semja við stóriðjuna áður en gripið er til ráðstafana eins og skömmtunar. Það sem ég velti fyrir mér í þessu samhengi er að við ákveðnar aðstæður geti staða stóriðjuvera þegar kemur að verðlagningu orðið mjög sterk og það geti komið fram í verðhækkunum til almennra notenda.

Þetta er gert, eins og ég segi, án þess að búin sé til nein umgjörð í kringum viðskiptin og við vitum hvernig þetta var þegar Landsvirkjun falaðist síðast eftir viðræðum við stórnotendur um endurkaup á raforku. Þá kom í ljós að fyrirtækin gerðu — kannski eðlilega af því að það kallaði á að þau drægju eitthvað úr umsvifum, það var ákveðinn fórnarkostnaður þarna sem var leiddur beint út í verðið — kröfu um margfalt samningsverð. Það sama hlýtur að eiga við þegar orkan er seld á jöfnunarorkumarkað Landsnets.

Eftir að ég hélt ræðu mína barst umsögn frá Alþýðusambandi Íslands og ég veit reyndar að þar innan dyra hafa verið ákveðnar áhyggjur af þessu undanfarnar vikur og bara meðal fólks líka sem starfar í stóriðjunni og er félagsmenn. Það barst umsögn til atvinnuveganefndar sem ég tel að sé full ástæða til að benda þingheimi á. Ég ætla bara að lesa hana í heild:

„Alþýðusamband Íslands vill gera athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum. Umsagnarbeiðni var ekki send sambandinu þrátt fyrir að efni frumvarpsins og breytingartillögur meiri hlutans varði hagsmuni almennings og félagsmanna Alþýðusambands Íslands.

Frumvarpið felur í sér breytingar sem ætlað er að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang komi til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, til að mynda vegna framboðsskorts. Sú staðreynd að skömmtun raforku er til umræðu er til marks um að stjórnvöldum hafi mistekist að standa vörð um orkuinnviði og þar með hagsmuni almennings.

Alþýðusamband Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við frumvarpið sem felur ekki í sér heildstæða lausn á þeim vanda sem steðjar að vegna þess að stjórnvöld hafa ekki tryggt orkuöryggi fyrir heimili og smærri fyrirtæki né vernd fyrir verðhækkunum á raforku.

Ljóst er að gera þarf breytingar á raforkulögum sem eru til þess fallnar að tryggja orkuöryggi almennings og smærri fyrirtækja og verja almenning fyrir hækkunum á raforkuverði sem getur haft víðtæk áhrif á kjör heimilanna í landinu. Það frumvarp sem hér um ræðir er ekki til þess fallið að ná þessum markmiðum heldur ber það einkenni illa ígrundaðs bútasaums sem keyra á í gegn í miklum flýti.

Þá hefur meiri hluti atvinnuveganefndar skilað af sér nefndaráliti með breytingartillögu sem gerir stórnotendur að markaðsaðilum raforku og þar með kleift að selja orku inn á kerfið til að bregðast við orkuskorti án þess að stjórnvöld þurfi að grípa inn í. Alþýðusambandið telur ástæðu að benda á að þótt breytingin virðist lítil geta áhrifin verið veruleg. Ef breytingarnar ná fram að ganga virðist ekkert koma í veg fyrir að stórnotendur raforku, þ.á.m. álver, geri hlé á starfsemi sinni og framleiðslu og ákveði að selja raforkuna frekar en að nýta hana, ef það reynist þeim hagstæðara. Aðstæður sem þessar geta myndast ef eftirspurn eftir raforku er mikil, framboð af raforku er lítið og verð á áli lækkar. Breytingar sem þessar geta grafið undan starfsöryggi launafólks stórnotenda raforku og haft ófyrirséðar afleiðingar á íslenskan vinnumarkað. Alþýðusamband Íslands gagnrýnir harðlega að stórum breytingum sem þessum sé bætt við frumvarpið á seinni stigum máls“ — hljómar þetta kunnuglega? — „án þess að mat hafi verið framkvæmt á mögulegum áhrifum og án undangengins samráðs.

Alþýðusambands kallar eftir því að stjórnvöld taki málið í heild sinni til endurskoðunar þar sem farið verði í heildstæðari breytingar á lagaumgjörð raforkumála þar sem áhrif breytinganna eru metin og tryggt verði að stjórnsýsla og eftirlitsstofnanir séu í stakk búnar til að hafa yfirsýn og eftirlit með raforkumarkaði.“

Þessi umsögn er undirrituð af Auði Ölfu Ólafsdóttur hjá verðlagseftirliti Alþýðusambandsins fyrir hönd Alþýðusambands Íslands.

Ég spurði hvort þetta hljómaði kunnuglega og þetta hljómar nefnilega pínulítið kunnuglega. Það eru örfáir mánuðir síðan það gerðist nákvæmlega það sama hjá atvinnuveganefnd, að áður en mál fór til seinni umræðu þá urðu á því grundvallarbreytingar sem eðli máls samkvæmt, af því að þær komu fram svona seint, voru ekki hluti af málinu þegar samráðið fór fram. Undir einhverjum kringumstæðum getur það alveg verið eðlilegt og samráðið á fyrri stigum er einmitt til þess gert að þingnefnd geti brugðist við og breytt og bætt frumvarp. Gallinn hér er sá að það er ekkert áhrifamat að finna. Það er ekki einu sinni gerð minnsta tilraun til að slá mati á það hvað þetta mun þýða.

Og af því að ég hef tíma hér eftir, þrjár mínútur, þá vil ég líka benda á atriði sem hefur ekki verið talað um hér í dag og er ekki minnst á í áliti meiri hlutans, sem er að það hafa nú þegar verið samþykktar breytingar á netmála Landsnets um kerfisþjónustu sem fela í sér að stórnotendur geta selt inn á jöfnunarorkumarkað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sú breyting virðist hafa verið samþykkt og staðfest af Orkustofnun í fyrra án þess að það hafi kallað á neinar breytingar á raforkulögum, eða ég ætla a.m.k. ekki að ætla stofnunum að hafa farið fram úr sér og verið að gera breytingar án lagaheimildar. Þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að skoða, einmitt þær breytingar sem verið er að gera á frumvarpinu út frá. Það er búið að búa til þennan möguleika undir ákveðnum kringumstæðum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að stórnotendur geti selt inn á jöfnunarorkumarkaðinn. Það sem mér sýnist að felist í þessari breytingu er fyrst og fremst að þarna er verið í rauninni að jafnsetja orkufyrirtækin og stórnotendur raforku á jöfnunarorkumarkaði. Það er í raun verið að þvinga Landsnet til að leita samninga við m.a. stórnotendur áður en kemur til þess að grípa þurfi til skömmtunar.

Í gær hafði hv. þm. Óli Björn Kárason á orði að verst af öllu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu væri ef grípa þyrfti til skömmtunar, að það væri það sem verið væri að forðast í lengstu lög. Auðvitað hljómar það hrikalega en það er engu að síður þannig að sú skömmtun sem verið er að mæla fyrir í frumvarpinu er skömmtun sem einmitt setur heimilin og fyrirtækin í var, á kostnað stóriðjunnar vissulega. Þannig að hér er að einhverju leyti, virðist mér, verið að taka einmitt þann kost að ráðast í aðgerðir sem geta þýtt að verð rýkur upp úr öllu valdi til heimila frekar en að halda því opnu að grípa til skömmtunar þar sem heimilin eru sett í forgang án þess að það hafi áhrif á verð.

Það má alveg taka málefnalega umræðu um þetta. Raforkumarkaðurinn er hugsaður svona að einhverju leyti, að verðið fylgi framboði og eftirspurn, en það verður þá að segja það hreint út í nefndaráliti og reyna þá að útskýra og rökstyðja breytingarnar, ekki í raun — (Forseti hringir.) ef þetta er eitthvað sem er nú þegar heimilt þá er þetta ekkert sérlega heiðarleg framsetning í nefndaráliti (Forseti hringir.) af því að af nefndarálitinu má skilja að grundvallarbreytingin sé að það sé verið að hleypa álverunum inn á jöfnunarorkumarkaðinn (Forseti hringir.) þegar það er nú þegar búið að gera það í netmála Landsnets. (Forseti hringir.) En þetta er bara mál sem þarf að ræða og skoða svo miklu, miklu betur.