138. löggjafarþing — 118. fundur,  6. maí 2010.

skerðing lífeyrisréttinda og staða opinberu lífeyrissjóðanna.

[11:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Málefni lífeyrissjóðanna hafa verið þó nokkuð til umræðu að undanförnu og reyndar allt frá bankahruninu af ýmsum ástæðum. Fyrst eftir hrun bankakerfisins var athyglin á vilja og styrk sjóðanna til að taka öflugan þátt í uppbyggingu efnahagslífsins á ný. Þeirri viðleitni sjóðanna var vel tekið á Alþingi en lítið hefur þó orðið ágengt í því að hrinda í framkvæmd hugmyndum um aðkomu lífeyrissjóðanna að ýmsum verkefnum og það er vegna seinagangs og tregðu hjá ríkisstjórninni. En vilji og geta lífeyrissjóðanna til að koma myndarlega að þessari uppbyggingu hefur dregið fram þann mikla styrk sem býr í sjóðunum. Samtals eru í íslenska lífeyrissjóðakerfinu um 1.800 milljarðar kr. Við getum verið þakklát fyrir forsjálni þeirra sem á sínum tíma stóðu að uppbyggingu sjóðanna til að standa undir framtíðarlífeyrisréttindum landsmanna.

Einungis örfáar þjóðir í heiminum standa jafnfætis okkur í þessu tilliti og margar hafa ratað í ógöngur með sitt gegnumstreymiskerfi. Við sjáum dæmi þess nánast í hverjum mánuði vegna erfiðleikanna sem við er að etja hjá ýmsum Evrópusambandsríkjum. Þar er víða nauðsynlegt að hækka lífeyrisaldur verulega og skerða réttindi til að kerfin hrynji ekki hreinlega.

Framan af var mikil óvissa um nauðsynlegar niðurfærslur og réttindaskerðingu í íslenska lífeyriskerfinu. Það væri í sjálfu sér eðlilegt að það tæki nokkurn tíma að fá fulla yfirsýn yfir áhrif bankahrunsins og að undanförnu hafa ýmsir sjóðir á vegum aðila vinnumarkaðarins þurft að skerða réttindi sjóðfélaga sinna eftir því sem þessi mynd hefur verið að skýrast. Það kemur ekki á óvart og umræða um þessi efni þarf að fara fram af yfirvegun og ábyrgð. Það væri t.d. óábyrgt af sjóðunum að skerða ekki réttindi þegar ljóst er að eignir sjóðanna standa ekki til lengri tíma undir þeim réttindum sem tryggð hafa verið. Það er ekki einungis óábyrgt, þeim er skylt að skerða réttindin. Það breytir því ekki að það er að sjálfsögðu sanngjörn og eðlileg krafa að stjórnendur sjóðanna standi ábyrgir fyrir sínum gerðum og þeim er skylt að gefa skýringar á því hvernig ávöxtun sjóðanna hefur verið undanfarin missiri. Í því tilliti held ég að menn verði að hafa í huga að það er ekki hægt að halda því fram með nokkurri sanngirni að lífeyrissjóðakerfið hefði getað mögulega komist hjá því að verða fyrir einhverjum áföllum í bankahruninu. Við skulum einnig hafa í huga að í sumum tilvikum er verið að draga úr réttindum sem höfðu verið aukin í uppsveiflunni en langtímaforsendur reyndust ekki vera fyrir.

Virðulegi forseti. Eins og efnahagshrunið hefur dregið fram kosti þess kerfis sem við höfum byggt upp hafa að sjálfsögðu einnig komið í ljós ýmsir vankantar og sumir þeirra gamalkunnir. Einn vandinn sem við höfum lengi glímt við er sá að tryggja sjálfbærni kerfisins. Þannig var B-deildinni í opinbera kerfinu lokað á sínum tíma þó að þar séu enn fjölmargir greiðendur. Ófjármögnuð, áfallin skuldbinding nemur þar rúmlega 420 milljörðum — ófjármögnuð skuldbinding. Vandinn sem ég vil gera að umfjöllunarefni liggur í því að réttindaávinnsla í opinbera kerfinu er óháð ávöxtun sjóðanna. Þar eru réttindin föst en ekki föst iðgjöld eins og í almenna kerfinu. Hvað þýðir það að hafa réttindin föst í opinbera kerfinu? Það þýðir t.d. það að við sem í þessum sal erum höfum okkar réttindi tryggð óháð því hvernig ávöxtun þess sjóðs sem að baki réttindunum stendur hefur tekist undanfarin missiri. Við vitum að það hefur gengið illa vegna þess sem hér hefur gengið á, en réttindin eru óskert.

Á almenna markaðnum er þessu öfugt farið. Þar þurfa menn að aðlaga réttindin ávöxtun sjóðanna og á endanum þýðir þetta að við erum tryggð en maðurinn í næsta húsi, sem þarf nú að sæta skerðingum á sínum lífeyrisréttindum vegna þess að þar hafa sjóðirnir ekki ávaxtast í samræmi við þau réttindi sem sjóðurinn gefur út, þarf að nýta skattfé sitt til að tryggja réttindi okkar og annarra opinberra starfsmanna. Þetta á sér allt saman sögulegar skýringar.

Það sem ég vil bera upp við fjármálaráðherra er spurningin um hvort við þurfum ekki að brjóta okkur leið út úr þessu þannig að til framtíðar litið séum við með eitthvert samhengi (Forseti hringir.) í réttindaávinnslunni og ávöxtun þeirra sjóða sem standa að baki þeim réttindum. Ég er ekki að tala fyrir því að við breytum neinu afturvirkt. Ég er að reyna að horfa (Forseti hringir.) fram á veginn og koma í veg fyrir að þessi ósanngirni, þetta ójafnvægi sem er á milli (Forseti hringir.) réttindaávinnslu í opinbera kerfinu og hinu almenna, verði viðloðandi til langs tíma.