144. löggjafarþing — 118. fundur,  3. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[11:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ljóst að það verður að fara að herða róðurinn á þessum vinnustað. Við erum í einhverju tómarúmi og stjórnarandstaðan á auðvitað fullan rétt á því að haft sé samráð við hana um hvernig við ljúkum þessu þingi. Við getum ekki borið ábyrgð á því að stjórnarmeirihlutinn hafi komið allt of seint inn með mörg mál og sé í raun ekki enn kominn með mál sem á að afgreiða á þessu þingi. Þetta er fyrir neðan allar hellur.

Hæstv. forseti talaði um að nefndir væru að störfum og fylgst væri með því að þær hefðu sinn tíma, en nefndirnar skarast. Í morgun til dæmis voru velferðarnefnd og atvinnuveganefnd að funda á sama tíma og þar eru nefndarmenn í báðum nefndum, svo að þetta er ekkert í lagi. Það er ekki hægt að sætta sig við þetta. Það verður að fara að grípa í taumana og við getum ekki sætt okkur við að vinnustaður okkar, okkar allra, sé í algeru uppnámi og menn stingi höfðinu í sandinn og þrjóskist áfram, eins og hæstv. forsætisráðherra gerir.