154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir að taka þetta mál á dagskrá. Ég tel að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Við Íslendingar búum yfir einstakri þekkingu og reynslu í því að takast á við náttúruhamfarir og það er þekking sem margir gera sér ekki grein fyrir því hversu mikilvæg er. Maður sér það þegar maður er erlendis að við tökum nánast eldgosi orðið sem sjálfsögðum hlut í okkar daglega lífi og tölum um túristagos og annað slíkt. En saga Íslands og náttúruhamfara er löng og nær árhundruð til baka og eins og hv. þingmaður kom inn á áðan þá dó t.d. stór hluti þjóðarinnar í náttúruhamförum Skaftárelda í lok 18. aldar. Ég tel mikilvægt að við Íslendingar tökum saman og hefjum undirbúning að því að miðla þessari þekkingu og reynslu með því að hefja nám í hamfarafræðum á háskólastigi. Ég tel að við Íslendingar búum yfir mikilli reynslu og þekkingu og að við höfum mjög miklu að miðla til annarra þjóða líka. Ég velti því upp hér hvort þetta nám ætti að vera alþjóðlegt og jafnvel þannig að Ísland myndi leggja til að það verði stofnaður náttúruhamfaraskóli Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Við erum í dag með Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vegna þekkingar okkar á sjávarútvegi og við erum einnig með Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vegna einstakrar þekkingar okkar á jarðhita og hversu vel okkur hefur tekist að nýta þá náttúruauðlind okkur til hagsbóta og aukinna lífsgæða. Ég tel að við höfum mjög miklu að miðla. Það er rétt sem kemur fram í grein í Morgunblaðinu í dag að þetta nær ekki eingöngu til náttúruvár sem slíkrar heldur tengist þetta öllum sviðum samfélagsins; félagsfræði, sálfræði, áfallahjálp, skipulagi bæja o.s.frv. (Forseti hringir.) Hér er um mjög stórt mál að ræða í dag í heiminum á tímum loftslagsbreytinga.