154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[13:56]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hvað þarf að koma til? Þegar við erum að tala um það hvort við framleiðum næga orku eða eigum næga orku eða ekki nægu orku þá er mín viska eingöngu tekin upp úr því útsýni sem ég hafði sem varaformaður atvinnuveganefndar á síðasta kjörtímabili þar sem mér hlotnaðist sá sómi að vera boðin bæði til Landsnets og Landsvirkjunar. Við fengum að fylgjast með því sem þar er, þeirri starfsemi og hvernig henni var háttað. Þar fengum við að sjá mjög metnaðarfulla uppbyggingu dreifikerfis t.d. hjá Landsneti sem þeir gerðu, samkvæmt öllum þeim glærum sem við fengum að sjá, í sátt við náttúruna. Maður sá varla nokkurn skapaðan hlut í orkuhúsin eða stöðvarhúsin vegna þess að það var búið að þökuleggja þetta allt. Þetta var bara virkilega glæsilegt. En einhverra hluta vegna hefur þessu verið haldið algerlega í láginni. Það liggur á borðinu að þar fengum við að vita að það væru um 30% af orkunni sem við framleiddum sem við kæmum ekki á markað. Núna er það talið, af því að það hafa nú bæst aðeins við aðilar sem hafa verið að nýta sér orkuna okkar — við höfum fengið þarna Blöndulínuna og við fengum tenginguna frá Kröflu líka þannig að eitthvað jókst nú orkan inn á kerfið okkar. En það breytir ekki þeirri staðreynd að þegar hv. þingmaður nefnir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk — ég veit náttúrlega ekkert með Framsókn en ég veit alla vega að ég ætla að alhæfa með Sjálfstæðisflokkinn hvað það varðar. Þeir vilja ekkert frekar heldur en kauphöll um allt og klósettið okkar líka. Það er bara þannig. Bara að koma öllu í markaðsmálin og bjóða bara allt saman upp, enda sjáum við það hérna alls staðar að ef það er einhver sem er með umframorku þá getur hann bara sett það inn á og geymt það og selt það. Og nú á bara að fara að bjóða í orkuna, búa til þannig haftastefnu að fyrst við getum ekki látið hækka raforkuna okkar með tengingunni við Evrópu um 300% þá verðum við að gera það einhvern veginn. Einhvern veginn verður að þvinga okkur, bæði fyrirtæki og heimilin í landinu, til að borga meira. Alltaf að borga meira, meira, meira, meira.