154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:21]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið og þessar skemmtilegu samlíkingar sem hann fór yfir í máli sínu. Ég er að hluta til sammála hv. þingmanni þegar kemur að dreifikerfinu eða í rauninni flutningskerfinu, stóra flutningskerfinu, svo tekur dreifikerfið við í framhaldinu, að ef það væri öflugt og við værum búin að fara í þá uppbyggingu sem þörf er á væri staðan betri. Hún væri vissulega ekki leyst en við myndum koma í veg fyrir vissa sóun sem er í kerfinu, alveg klárlega. Og ég tala nú ekki um ef við myndum líka efla orkuöryggi í landinu með því að geta þá — ég tala nú ekki um ef við myndum ná hringtengingunni — flutt orkuna frá einu svæði til annars ef upp kæmi t.d. sú staða að hér yrði eldgos eða flóð. Ef við horfum t.d. til þess hvar megnið af virkjunum okkar er, ef það kæmi flóð í Tungnaá þá værum við kannski ekki í mjög ákjósanlegri stöðu hér á stórhöfuðborgarsvæðinu. En það er klárlega verið að taka á þessu, Landsnet er með uppbyggingaráætlun. En það er rétt að þetta tekur of langan tíma. Þetta er of flókið. Það eru of margir aðilar sem koma að borðinu. Það eru líka vissir hagsmunir í húfi sem við þurfum að bera virðingu fyrir sem og skipulagsréttur sveitarfélaga. En það var samþykkt hér á þessu kjörtímabili frumvarp, raflínunefndarfrumvarpið svokallaða, þar sem segir að ef lína fer í gegnum fleiri en eitt sveitarfélag geti allir aðilar sem tengjast málinu komið að borðinu og reynt að finna lausn, sé einhver ágreiningur um það. Þetta er hugsað til þess að flýta fyrir ferlinu og við erum að sjá að hugsanlega mun það hafa áhrif núna varðandi hringtenginguna að þær tvær línur sem fara í gegn frá Akureyri að Grundartanga muni ganga hraðar fyrir sig en Blöndulína sem er búin að vera núna í kerfinu í þó nokkur ár. Þannig að það er verið að leita leiða og ég tala nú ekki um líka með sameiningu stofnana o.fl. (Forseti hringir.) En vissulega þarf að taka betur á þessu.

Ég næ því miður ekki að svara öllum spurningunum en ég kem vonandi að þeim í mínu seinna andsvari.