154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:53]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Það er auðvitað mikið gleðiefni að klukkan sé komin í gang. Við ræðum hér við 2. umræðu frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum. Þetta mál var töluvert rætt efnislega á síðasta þingi. Það voru ýmsir meinbugir sem þá komu fram sem hafa að einhverju marki verið lagfærðir.

Byrjum aðeins á því að ná utan um stóru myndina og ástæðu þess að þetta frumvarp er nú endurflutt að meginhluta óbreytt. Það er auðvitað sú hryggðarmynd sem hefur teiknast upp gagnvart orkuframleiðslu hér á landi á undanförnum árum. Við höfum séð hversu illa hefur gengið að koma rammaáætlun áleiðis. Ég held að hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hafi flaggað því að ný rammaáætlun yrði lögð fram 31. mars sl., ef ég man rétt. Sá tími er tryggilega liðinn. Væri nú gustuk að við þingmenn fengjum upplýsingar um það hvernig sú vinna gengur. Það skiptir máli að það sé einhver taktur í þessu, sérstaklega í ljósi þess hversu langan tíma tók að samþykkja síðustu rammaáætlun. Hún var samþykkt á þarsíðasta þingi, væntanlega.

Orkuskortur hefur blasað við undanfarin ár. Gerð er tilraun hér til að bregðast við honum hvað ákveðna öryggisþætti og stöðu heimila og smærri fyrirtækja varðar. Í nýju mati Landsnets, sem var birt í liðinni viku frekar en þarsíðustu viku, er teiknuð upp sú mynd að þetta ástand muni ágerast til ársins 2028, ef ég man rétt. Það er auðvitað ótrúleg staða að við séum hér á árinu 2024. Þessi þróun hefur blasað við árum saman, eins og segir í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem því er lýst að þessi þróun hafi átt sér stað og hún sé að ágerast. Þar hafi lengi verið sú staða uppi að þrýstingur á orkuskort væri að aukast. Þessi hægu viðbrögð við þessari stöðu eru auðvitað — hérna er þetta í nefndaráliti meiri hlutans, með leyfi forseta: „Á síðustu árum hefur nýting virkjana farið jafnt og þétt vaxandi. Eftirspurn hefur aukist mun hraðar en framboð raforku.“

Þetta hefur blasað við árum saman. Samt erum við á þeim stað árið 2024 að ósköp fátt hefur gerst til að færa þetta til betri vegar. Við þekkjum öll tímalínu þess að koma vatnsaflsvirkjun eða jarðvarmavirkjun til orkuframleiðslu frá því að ákvörðun er tekin. Það er þyngra en tárum taki að við okkur, í þessu orkuríka landi, blasi tækifæri sem fæstar þjóðir ef nokkrar hafa í raun. Stundum er orðinu forréttindablinda flaggað í ýmsu samhengi hér heima. Ég held að ef það er einhver forréttindablinda sem við Íslendingar, eða hluti okkar, erum haldnir sé það þessi blinda á tækifærin, þessa ótrúlegu stöðu sem við höfum gagnvart framleiðslu á grænni og endurnýjanlegri raforku sem flestar þjóðir myndu gefa mikið fyrir að vera í.

En hér erum við og þetta er staðan. Það er orkuskortur, það hefur verið orkuskortur undanfarin ár og orkuskortur mun ágerast á næstu árum samkvæmt spá Landsnets. Við þekkjum líka að inn í þessa mynd tvinnast vandamál sem varða uppbyggingu flutningskerfisins og hafa blasað við lengi en maður taldi að fengju nægilega athygli í aðventuhretinu á sínum tíma árið 2020. Það fer að halla í fjögur ár síðan það brast á. Það gengur hægt. Enn erum við í þessum vandræðum með að koma línulögnum á milli svæða. Ég held að það sé alveg ljóst að aldrei hefði hvarflað að þeim sem mótuðu regluverk umhverfismats og umhverfisverndar á sínum tíma að regluverk myndi þróast þannig og verða túlkað með þeim hætti að varla yrði hægt að framleiða græna viðbótarorku og alls ekki hægt að flytja hana á milli svæða. Þetta var ekki markmiðið.

Það er búið að misnota og snúa út úr þeirri löggjöf sem grundvallar náttúruvernd hér á Íslandi. Það er mjög miður vegna þess að ég held að langflestir Íslendingar eða hér um bil allir séu í raun náttúruverndarsinnar. Ef þeirri starfsemi að framleiða endurnýjanlega græna orku — sem öll samfélög sem við berum okkur saman við myndu gefa mikið til að hafa tækifæri til að gera í sama mæli og hér — er stillt upp sem andstæðingi náttúrunnar erum við á vondum stað.

Það er sama hvort það eru við mannfólkið og náttúran eða mismunandi geirar atvinnulífsins, öll þurfum við einhvern veginn að finna leið til að vinna saman og búa saman í þessu samfélagi. Ákveðnir hópar samfélagsins telja lausnina á þessu vera þá að slökkva á stórum iðnfyrirtækjum. Þeir sem harðast ganga fram vilja jafnvel taka af þeim orkuna, sem er hreinlega ótrúleg hugmynd. Meginplanið virðist vera að endurnýja ekki orkusamninga. Það er einhver hugsunarvilla í þessu, þykir mér, gagnvart mikilvægi atvinnulífsins fyrir land og þjóð og gagnvart mikilvægi verðmætasköpunar hér heima fyrir efnahagslífið og þjóðarhag allan og gagnvart getu okkar til að standa undir þeim velferðarkerfum sem við viljum hafa sterk, og sterkari en nú er. Það verður ekki gert nema með aukinni orkuframleiðslu og aukinni verðmætasköpun.

Ég læt þetta duga varðandi flutningskerfin og flutning raforku milli svæða.

Ég ræði nú aftur um nýframkvæmdir sem snúa að orkuframleiðslu. Það er löngu orðið ljóst, held ég, að það verkfæri sem rammaáætlun átti að vera til að tryggja eða reyna að skapa sátt um orkuframleiðslu í samfélaginu eins og frekast er unnt, það verkfæri er orðið verulega krambúlerað, ef ekki ónýtt. Mér segir svo hugur að við siglum inn í þann tíma að við verðum að skoða það alvarlega að setja sérlög um tiltekna virkjunarkosti til að fyrirtæki komist af stað með slík verkefni. Reyndin virðist vera sú að verkefni sem eru í nýtingarflokki eru áfram undirorpin gríðarlegum átökum. Í raun er allt leyfilegt til að bregða fæti fyrir slík verkefni eftir að þau eru komin í nýtingarhluta rammaáætlunar. En verkefni sem fara í verndarflokk má aldrei ræða aftur í neinu samhengi.

Ef við tölum um skotgrafir í þessum efnum, sem er miður, virðast menn líta regluverkið ólíkum augum eftir því hvorum megin hryggjar þeir lenda í þessum efnum. Við verðum að komast út úr þessari stöðu. Þetta er dragbítur á aukna hagsæld í landinu. Ég leyfi mér að segja að þeir sem telja að svo sé ekki og að hægt sé að leysa þetta með því að loka stóriðju misskilji stöðuna alveg stórkostlega og með mjög alvarlegum hætti. Að taka ákvörðun um að framlengja ekki eða endurnýja ekki raforkusamning við stóriðjufyrirtæki á grundvelli pólitískra markmiða, eins og þeirra sem ég ræði hér, hefði ekki bara áhrif á það tiltekna fyrirtæki sem í því lenti heldur á alla erlenda fjárfestingu hér á landi, og í raun öll fyrirtæki sem hér starfa, ef kemur á daginn að það er engin festa eða trygging í því að eiga viðskipti við íslenska aðila sem eru undirorpnir boðvaldi stjórnvalda hverju sinni. Ef ekki er traustur mótaðili mun það hafa ofboðsleg áhrif á velsæld í landinu til langrar framtíðar. Ég vara við því að feta þann veg.

Lausnin að mínu mati er að framleiða meiri orku með þessum góðu kostum sem við eigum í vatnsafli og jarðvarma. Eins og ég hef sagt ítrekað hér í pontu hef ég efasemdir um margar þeirra hugmynda sem eru uppi varðandi vindmylluvæðingu. Ég ætla ekki að verja tíma í að útskýra hvers vegna, annar tími er betri til þess. Á meðan við eigum marga góða kosti í vatnsafli og jarðvarma eigum við að halda áfram á þeirri braut og gera það vel. Í þeim efnum erum við með þeim bestu í heimi ef ekki best. Svo að maður blandi loftslagsmálum inn í þetta, þá erum við löngu búnir að skila okkar og algerlega fráleitt að við séum taglhnýtingar Evrópuregluverksins í þeim efnum. Þar er verið að móta regluverk sem á við um raunveruleika sem er allur annar en hér heima. Hér erum við búin að fara í gegnum orkuskipti sem snúa að húshitun og slíku sem flestar Evrópuþjóðir eiga eftir að ganga í gegnum. Höldum þeim punkti til haga.

Aðeins að þessu atriði sem er verið að ramma inn í þessu frumvarpi. Það eru þessar forgangsreglur þegar til skerðingar þarf að koma. Þær eru þannig að mann óaði við því þegar upphafleg tillaga var sú að gera orkumálastjóra að einhvers konar skömmtunarstjóra rafmagns á Íslandi. Það var fyrsta upplegg þegar málið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi. Síðan fóru menn eðlilega yfir í það að þessi ábyrgð eigi að hvíla á herðum ráðherra orkumála hverju sinni enda ber sá ráðherra endanlega ábyrgð á ákvörðuninni hvort sem er. Ég held að áhugi ráðherra orkumála á hverjum tíma á því að þurfa að stíga inn sem þessi öryggisventill hljóti að vera svo lítill að ráðherra þess málaflokks verði að taka til skoðunar nú að setja sérlög um tiltekin verkefni.

Ég minni á að það voru uppi áform um að ný rammaáætlun yrði kynnt í lok mars. Ég held að ég muni það rétt að hæstv. ráðherra hafi tilkynnt það. Nú erum við komin fram í byrjun júní. Ráðherra verður helst að senda skilaboð hingað, áður en þetta mál verður klárað, um hvað tefur í þessum efnum.

Lykilatriði í þessu frumvarpi er heimild aðila til að selja aftur inn á kerfið. Mér þykir heldur lauslega um það búið. Ég segi á sama tíma að mér finnst mikilvægt að þetta sé fær leið. En við þurfum að reyna að móta regluverkið þannig að þetta verði ekki sjálfstæður bransi stórkaupenda raforku hér heima sem, eins og við þekkjum, kaupa 80–85% af allri raforku sem framleidd er á Íslandi. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að hafa þetta svo lausbeislað að það myndist sjálfstæð viðskiptaeining hjá þessum stóru fyrirtækjum hvað varðar endursölu inn á kerfið þegar staðan er snúin. Ég beini því til þeirra sem halda á þessu máli að reyna að móta það þannig að það verði ekki niðurstaðan.

Í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem breytingartillögur eru lagðar fram, er eftirfarandi kafli, með leyfi forseta:

„Nefndin var upplýst um að á vegum ráðuneytisins sé unnið að því að endurskoða allt regluverk raforkumarkaðarins og stuðla með því að auknu orkuöryggi þjóðarinnar. Um margþætt langtímaverkefni er að ræða og stefnir ráðuneytið að því að leggja fram fleiri frumvörp á komandi löggjafarþingum.“

Ég held að þetta sé misritun. Það hlýtur að vera ráðherra sem leggur þessi frumvörp fram þegar þar að kemur. Það skiptir kannski ekki öllu máli. Í ljósi þess hversu langan aðdraganda þessi þróun og þessi staða hefur haft þykir mér undarlegt að horft verði til þessara hluta á næstu löggjafarþingum. Það er greinilegt að verið er að horfa lengra en til næsta löggjafarþings, nefnilega til næsta kjörtímabils.

Mönnum hlýtur að vera ljós sú staða sem þarf að bregðast við nú þegar. Ég velti fyrir mér hvort mat starfsmanna ráðuneytisins — ekki endilega ráðherrans úr því að þetta er orðað svona — sé að ekki sé hægt að ná neinum árangri nú um stundir. Ríkisstjórnin sé þannig samsett að það sé ekki hægt að ná árangri með lagfæringu þessa regluverks nú um stundir. Það er auðvitað áhyggjuatriði í sjálfu sér. Ég nefni þetta hér svo að við höfum í huga að vandamálið liggur fyrir, það hefur blasað við árum saman og mun ágerast. Hér er verið að flagga því að það eigi að gera einhverjar tillögur á næsta kjörtímabili. Af hverju eru þessar tillögur ekki gerðar núna? Nægur hefur tíminn verið. Vandamálið hefur legið fyrir. Í meginatriðum er ljóst hvar skórinn kreppir. Meiri hlutinn segir einnig, með leyfi forseta: „Að mati meiri hlutans er ljóst að eftirspurn eftir raforku mun halda áfram að aukast.“ Það blasir við og er rétt.

Það eru nokkur atriði sem er ánægjulegt að hafi ratað inn í nefndarálit meiri hlutans, m.a. sjónarmið er varða sölu á glatvarma. Regluverkið býður svo sem upp á það nú, sbr. 18. gr. b í raforkulögum. Ef ég skil rétt vantar reglugerðarsetningu og þess háttar til að það verði raunhæft verkfæri í þessum efnum. Ég hvet þingmenn til að lesa nefndarálitið því að þarna er eitt og annað ágætt, sérstaklega sá kafli sem snýr að sölu glatvarma, sem er auðvitað gríðarlega mikill í kringum þessi stóru fyrirtæki sem um ræðir. Varðandi þetta kemur eftirfarandi fram í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Það mætti m.a. gera með því að gera stórnotendum kleift að selja orku aftur inn á kerfið til kerfisstjóra,“ — sem er Landsnet — „en slík heimild er ekki til staðar í dag í raforkulögum.“

Þarna er verið að rökstyðja breytingartillögu varðandi það að liðka fyrir þessu. Fyrirgefið, þetta er annað atriði en ég ætlaði að koma inn á. Ég finn það ekki í fljótu bragði. Í seinni ræðu minni kem ég kannski inn á það sem ég ætlaði að reyna að ramma inn hérna.

Ég tek nú saman stóru myndina hér í lok fyrstu ræðu minnar varðandi raforkulög. Ég reyndi að fara yfir stóru myndina og fer kannski í smærri atriði, hvert og eitt, á eftir. Stóra myndin er sú að kjarnavandamálið liggur ekki í því sem við erum að bregðast við hérna. Kjarnavandamálið liggur í of lítilli orkuframleiðslu og alltumlykjandi doða árum saman hvað það varðar að komast áfram með ný verkefni.

Við sjáum þetta í því hversu illa hefur gengið að klára rammaáætlun. Við sjáum þetta í því að ný rammaáætlun, sem hafði verið flaggað að kæmi fram fyrir páska, er ekki enn komin. Mál sem snúa að regluverki orkumála hafa öll dregist fram í blálok löggjafarþingsins en ég get ekki séð að þau séu þeirrar gerðar að eitthvað hafi kallað á slíkt. Þetta eru allt saman mál sem hefði verið hægt að afgreiða og klára í góðu tómi á fyrri stigum þingvetrarins en eru hér í stressi undir lok þings. Þau munu mögulega gjalda fyrir það með takmarkaðri umræðu nema hún verði rúm ef málið kemur tímanlega til 2. umræðu. En það eru allar líkur á því að hún verði takmörkuð ef fram heldur sem horfir og þessi hefðbundni þinglokataktur verður sleginn, að mál sópast í gegn eftir að samningar hafa náðst. Það er ekki til bóta hvað það varðar að færa okkur áfram í því verkefni að auka orkuvinnslu og -framleiðslu á Íslandi.