154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[15:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir hans ræðu. Það er gleðiefni að sjá a.m.k. tvo eða þrjá stjórnarþingmenn hér inni, sem hafa orku til að taka þátt í þessari umræðu, því að það virðist vera algert orkuleysi hjá þessari ríkisstjórn. Ég spyr hv. þingmann hvort þessi afurð sé ekki bara uppgjöf og beri vitni um algert orkuleysi ríkisstjórnar í að framleiða orku, í orkumálum. Jú, við erum að redda einhverjum 5%, að tryggja að þeir sem njóta 5% af orkunni fái orku til að geta knúið heimilið eða annað. Á sama tíma er netkerfið og dreifikerfið allt í hnút og hefur verið allan tímann. Hvað hefur ríkisstjórnin verið að gera allan þennan tíma, þessi sjö ár? Og við getum farið enn lengra aftur vegna þess að ástandið er á ábyrgð fjórflokksins sem hefur verið hér við völd. Þetta ástand er á ábyrgð þeirra flokka og það er eins og þeir hafi gefist upp. Þá er þetta frumvarp bara búið til til þess að bjarga eigin skinni.