154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mikilvægt og við þurfum að hamra járnið á meðan það er heitt. En aðeins að öðru: Fram undan eru mikilvægar framkvæmdir og fyrirætlanir Landsnets. Þar sjáum við fram á mikilvæga uppbyggingu á flutningskerfinu, stækkunaráform o.s.frv., til þess að miðla orku betur, sem er algjört lykilatriði. En það býr ekki til meiri orku og það er það sem við þurfum að fara í, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Ég tek líka heils hugar undir að við þurfum að finna — okkur Íslendingum hefur auðnast að finna jafnvægi milli náttúrunýtingar og orkunýtingar og við þurfum að halda því áfram. Við þurfum að hafa í huga að orkuskiptin eru stærsta verkefni íslenska orkugeirans til lengri tíma og líklega það mikilvægasta þegar kemur að baráttunni við loftslagsbreytingar. Bæði Landsvirkjun og Landsnet og fleiri hafa sett fram svipaða sviðsmynd um raforkuþörf til næstu tíu ára, að hún aukist um 6,5 TWst., 4 TWst. í orkuskipti á landi og hafi og 1 TWst. fyrir almennan vöxt samfélagsins og 1,5 fyrir nýja stórnotendur, og þá er verið að tala um landeldi, gagnaver og fleira. (Forseti hringir.) Hvernig sér hv. þingmaður að næstu skref verði stigin í því að við náum einu stærsta verkefni samtímans í baráttunni við loftslagsbreytingar þar sem orkuskiptin eru lykilatriði?