154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er kannski ekki margt sem ekki hefur komið fram við þessa löngu umræðu um þetta ágæta frumvarp hér á hinu háa Alþingi í dag og í gær. Ég freistast þó til að leggja nokkur orð í belg, ekki síst vegna þess að um leið og markmið þessa frumvarps, sem er ekki mjög umfangsmikið eða flókið, einar þrjár greinar eins og fram hefur komið, er skiljanlegt og jafnvel gott, þá afhjúpar flutningur þessa máls þá vanrækslu sem átt hefur sér stað við bæði uppbyggingu orkukerfisins og innviðanna og ekki síður við það að innleiða þriðja orkupakkann sem var lögfestur að mig minnir árið 2019 og kveður á um margar skyldur sem við höfum samþykkt að axla og innleiða með okkar hætti í íslenska löggjöf. Það er auðvitað rétt, eins og ítrekað hefur komið fram við þessa umræðu, að að sjálfsögðu innleiðum við gerðirnar og orkupakkana svokölluðu með okkar hætti og í samræmi við íslenskar aðstæður. Ef við viljum ekki gera það verðum við að setja fyrirvara fremst í því ferli. Það er kannski ekki alltaf sem það er gert og stundum hreinlega yfirsést það. En við höfum ekki gert það hvað varðar stærstu málin sem heyra undir orkupakkana og kannski hefðum við þurft að gera það fyrir um 20 árum síðan þegar við ákváðum að gera eins og innan Evrópusambandsins, að skipta upp markaðnum og koma á samkeppni á orkumarkaði. Þegar það var ákveðið hér á hinu háa Alþingi þá gleymdist líklega eða misfórst í þeim lagabreytingum að fela einhverjum aðila þá ábyrgð að tryggja raforkuöryggi í landinu. Þá ábyrgð hafði Landsvirkjun haft en henni var létt af því fyrirtæki fyrir um 20 árum og síðan þá hefur það ágæta fyrirtæki reglulega bent stjórnvöldum á að einhver verði að sjálfsögðu að bera ábyrgð á því að hægt sé að tryggja raforkuöryggi heimila og almennings og fyrirtækja í landinu.

Það er líka mjög mikilvægt að átta sig á því í þessari umræðu að við erum alltaf í raun að tala um tvo markaði. Við erum að tala um þann hluta raforkumarkaðarins sem alþjóðleg stórfyrirtæki sem stunda stóriðju á Íslandi eru á. Við þau fyrirtæki eru, eins og allir vita, gerðir langtímasamningar. Þau kaupa mikla orku og vegna magnsins geta þau fengið, að því er virðist, ásættanlegt verð, a.m.k. telja þau enn þá hag sínum borgið við það að hafa starfsemi sína á Íslandi. En það er líka rétt, eins og hér hefur komið fram, að á undanförnum árum hefur raforkuverð hækkað og það er einnig lagaleg skylda Landsvirkjunar t.d., svo ég tali nú um það fyrirtæki sem er í ríkiseigu, að ná hæsta verðinu í samningum við stórnotendur. Það er beinlínis lagaskylda þess. Svo er restin af markaðnum, almenningur og fyrirtækin. Það eru heimilin í landinu og öll önnur fyrirtæki í landinu. Samtals taka þessir aðilar til sín u.þ.b. 15% orkunnar og heimilin einungis 5%, ef ég man þetta rétt. Þar höfum við skyldur. Við höfum að sjálfsögðu skyldur við þessa aðila og við almenning í landinu að tryggja raforkuöryggi, en við höfum kannski ekki verið með augun á þeim skyldum, alla vega ekki mikið þangað til núna upp á síðkastið.

Þetta skýrir að einhverju leyti framlagningu þessa frumvarps en þó ekki að öllu leyti af því að umræðan hefur á undanförnum misserum aðallega snúist um að það sé orkuskortur í landinu og að hann sé nýtilkominn en hefur minna snúist um það hvernig við höfum ekki tryggt raforkuöryggi í landinu. Við vitum öll að þegar við vinnum orku úr náttúrulegri auðlind þá stjórnum við því ekki. Við stjórnum ekki náttúrunni. Þegar lágt er í lónum og vatnsár eru slæm, sem gerist sem betur fer ekki mjög oft en þó reglulega og hefur gerst nokkrum sinnum á undanförnum áratug, þá reynir á orkukerfið. Þá kemur að því að það reynir t.d. á samningana sem ýmsir aðilar hafa gert og kaupa þá orkuna við lægra verði. Á móti kemur getur Landsvirkjun t.d. skert afhendingu þegar vatnsár er slæmt. Það er í rauninni sérmál eins og líka hefur komið fram. Ég skil þetta frumvarp þannig að hér sé ekkert verið að taka á því. Ef t.d. sveitarfélög ákveða að kaupa skerðanlega orku af Landsvirkjun til að halda úti fjarvarmaveitunum er ekki verið að vernda þá aðila með þessu frumvarpi, en það er hins vegar það sem hefur kannski verið mest í umræðunni eins og fram hefur komið og á hefur verið bent í dag og í gær. Þess vegna afhjúpar þetta frumvarp kannski svolítið ráðaleysi stjórnvalda þegar að þessum málaflokki kemur. Ég geri engar athugasemdir við að við setjum í lög það sem þarf þar að vera og þau úrræði sem þurfa að vera ef óviðráðanleg atvik valda því að framboð af raforku fullnægir ekki eftirspurn og önnur úrræði duga ekki til. Það er það sem stendur hér, frú forseti, í 2. gr. þessa frumvarps, þannig að í rauninni er þetta frumvarp síðasti þrautavarinn, það síðasta sem við grípum til ef upp koma óviðráðanleg atvik, kannski ófyrirséð, sem valda því að skerða þurfi framboð raforku og í raun að skammta hana.

Það er að sjálfsögðu í algerum undantekningartilvikum sem þetta getur gerst og við eigum auðvitað að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að raforkukerfið geti nokkurn tíma lent á þessum stað. Það er í rauninni stóra viðfangsefnið, að sjá til þess að það þurfi aldrei að grípa til skömmtunar. Hér er verið að setja undir einhvern leka eða setja inn þennan þrautavara sem ég vil kalla, með þeim hætti að ég er ekki endilega viss um að tillagan sem lögð er fram í þessu frumvarpi þjóni markmiðum frumvarpsins, eða réttara sagt að tilgangurinn helgi meðalið. Hér hefur verið bent á og með góðum rökum að ef það verður þannig að Landsnet geti samið við stóra orkunotendur, t.d. álverin, um endurkaup á orku þá fari þetta auðvitað fyrst og fremst að snúast um verðið og milliliðina. Og hverjir borga á endanum? Í grunninn sé ég ekki í þessu frumvarpi, og þá verður einhver að sannfæra mig um að fyrir því sé séð, neitt ákvæði sem tryggir raforkuöryggi gegn sanngjörnu verði til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda. Það er áhyggjuefni af því að eins og hér hefur verið skýrt út getur þessi viðskiptagjörningur leitt af sér stórkostlega hækkun á raforkuverði, stórkostlega hækkun. Það hlýtur að vera eitthvað sem við stjórnmálamenn og þau sem vilja gæta að almannahagsmunum í landinu hljótum að vilja koma í veg fyrir og eigum að koma í veg fyrir. Hér er kannski í fyrsta lagi vert að benda á að samkvæmt frumvarpinu nær það ekki til þeirra sem hafa gert skerðanlega raforkusamninga. Síðan er það þetta með hvernig verðmyndunin er. Ef það verða þessi endurkaup eða endursala innan kerfisins þá eru þessir aðilar orðnir markaðsaðilar, eins og bent hefur verið á í umsögnum, m.a. frá Neytendasamtökunum og Landvernd sem skiluðu sameiginlegri umsögn á síðasta þingvetri þegar verið var að vinna að þessu máli.

Hér hefur nokkuð verið talað um í fyrri ræðum, m.a. frá hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni í Flokki fólksins, að hinn ógurlegi raforkumarkaður Evrópusambandsins megi alls ekki tengjast okkur. Það getur vel verið að það sé alveg rétt og það er ekkert sem bendir til þess að hann sé að fara að tengjast okkur í bráð, enda erum við með lokað raforkukerfi og orkubúskapurinn á Íslandi er allt öðruvísi en eiginlega í öllum öðrum ríkjum í heimi. Það verður bara að segjast eins og er. Það er sérstaða sem við þekkjum vel. En þó að við höfum getað nýtt endurnýjanlegar auðlindir til að framleiða raforku þá útilokar það ekki að við gerum mistök og förum illa með hana. Við gætum í raun verið að gera stórkostleg mistök ef meiri hlutinn ákveður að afgreiða þetta mál og ekki leyst þann vanda sem lagt er upp með að leysa.

Mig langar til að vitna í, með leyfi forseta, ársgamla umsögn frá Neytendasamtökunum og Landvernd þar sem segir:

„Ekki eru gerðar athugasemdir við viðmið fyrir raforkuöryggi á heildsölumarkaði. Hins vegar er mikilvægt að taka tillit til þess að heildsölumarkaður hefur undanfarin ár verið ákveðin afgangsstærð og ekki verið virkur sem markaður með verðmyndun.“ — Hér er verið að gera heildsölumarkaðinn virkan í verðmyndun. — „Í fámennu landi með fáa stóra framleiðendur er ólíklegt að fyrir hendi sé virkur heildsölumarkaður þar sem samkeppni stýrir verðmyndun. Þrjú fyrirtæki í opinberri eigu framleiða um 90% af allri raforku á landinu. Tæplega 80% af raforkunni fara til fárra stórnotenda með samninga til lengri tíma. Almenni markaðurinn er um 17%. Hlutur Landsvirkjunar er svo stór að fyrirtækið eitt getur stýrt markaðsverði á heildsölumarkaði.“

Ég tek skýrt fram að ég hef ekki átt kost á því að hlusta á allar ræður hv. þingmanna um þetta mikilvæga mál, en það hefur ekki mikið verið fjallað um það að hér er verið að gera breytingar á heildsölumarkaðnum. Verið er að leggja þær til. Hann er annars eðlis en smásölumarkaðurinn. Markaður virkar þannig að ef það er skortur þá hækkar verðið, það segir sig sjálft. En við erum samt ekki að leysa það sem við ættum að vera að leysa hér, að tryggja raforkuöryggi til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda, á sanngjörnu verði. Það er það sem er skylda stjórnvalda og það sem við höfum undirgengist með því að innleiða m.a. þriðja orkupakkann. Svo kemur sá fjórði og síðan sá fimmti. Það vill þannig til að samkvæmt þriðja orkupakkanum, sem ég hef heyrt aðeins í umræðunni að margir telja u.þ.b. það versta sem hefur verið innleitt í íslenska löggjöf, er það skylda okkar að tryggja það sem þar er kallað alþjónusta. Það er alþjónusta við fólkið í landinu, við heimilin og fyrirtækin. Við þurfum að vernda þau og tryggja raforkuöryggi þeirra. Þetta hefur legið fyrir árum saman en lítið sem ekkert verið gert til að koma þessu inn í löggjöfina. Orkumálastjóri, Halla Hrund Logadóttir, hefur margoft bent á þetta, bæði í almennri umræðu og einnig á þingnefndarfundum og á fundum með þingmönnum. Í raun hefur ekki verið nein hlustun hjá ráðherrum í þessari ríkisstjórn og í rauninni mjög lítill skilningur á nauðsyn þess að vernda sérstaklega alþjónustunotendurna. Það kann að vera að þetta frumvarp megi túlka sem hluta af því að gera það með góðum vilja, en það er samt bara hugsað til þess að mæta óviðráðanlegum atvikum, ef allt um þrýtur og ef það þarf að skammta. Við vonum auðvitað að við förum aldrei á þann stað en hingað til höfum við ekki verið að ræða um þá skyldu okkar að tryggja aðgang alls almennings að raforku á sanngjörnu verði. Það er hluti af því sem við ákváðum að gera með innleiðingu þriðja orkupakkans og það er hluti af því sem við eigum að gera sem velferðarsamfélag, að koma því til skila.

Mig langar rétt í lokin að nefna bréfið sem hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson nefndi hér áðan og var að berast til nefndasviðs Alþingis frá Alþýðusambandi Íslands og vitna í það með leyfi, frú forseti:

„Sú staðreynd að skömmtun raforku er til umræðu er til marks um að stjórnvöldum hefur mistekist að standa vörð um orkuinnviði og þar með hagsmuni almennings.“

Ég tek undir það. Það þarf nefnilega líka, og það kemur fram í bréfinu frá ASÍ, að verja almenning fyrir hækkunum á raforkuverði. Það er eitthvað sem við þurfum að gera og það er hápólitískt og mjög mikilvægt mál. Alþýðusambandið telur þetta frumvarp ekki til þess fallið að ná þeim markmiðum. Ég tek undir með Alþýðusambandi Íslands og tek einnig undir það sem kemur fram í niðurlagi bréfsins, að það þurfi að endurskoða raforkulögin í heild sinni og það kerfi sem við búum við en ekki fara í þennan bútasaum, ekki hlaupa undir þann leka sem síðast sást. Eins og fram hefur komið ítrekað í þessari umræðu þá hefur hún aðallega stýrst af tvennu; lágri vatnsstöðu og því að skerða skerðanlega orkusamninga. Þetta frumvarp mun ekki breyta því. Þetta frumvarp breytir náttúrlega ekki vatnsstöðunni og mun heldur ekki bjarga þeim sem hafa gert skerðanlega orkusamninga.

Spurningin sem stendur eftir í mínum huga er í rauninni þessi: Hvers vegna er meiri hlutinn á hinu háa Alþingi að flytja frumvarp af þessu tagi þegar það er alveg skýrt og hefur legið fyrir árum saman hvað það er sem við þurfum að gera? Af hverju erum við aldrei með augun á aðalatriðunum? Hvers vegna erum við ekki að skilgreina alþjónustuna með fullnægjandi hætti í raforkulögum og hvers vegna erum við ekki að skilgreina hlutverk allra aðila á raforkumarkaði til að tryggja raforkuöryggi? Og hvers vegna erum við ekki að standa fyrst og fremst vörð um raforkuöryggi almennings í landinu, þ.e. heimila og fyrirtækja?