154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:12]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held, og ég tel að hv. þingmaður hafi einmitt verið að fara þangað í lokin á sínu svari, að þótt efnisreglurnar í þessari endurnýjuðu tilskipun eigi ekkert sérstaklega vel við á Íslandi í allt öðru samhengi orkumála gætum við lært svolítið af þessum hugmyndum um það sem er kallað á ensku „overriding public interest“ og að í einhverjum ákveðnum tilvikum þá ætti að setja hluti í forgang. Þá dettur mér í hug það sem ég held að sé jafnvel sama hugmynd og hv. þingmaður ætlaði að fara að brydda upp á, að við erum með þetta tæki sem rammaáætlun er þar sem löggjafinn ákveður að ákveðin svæði eigi að vera í nýtingarflokki og svo önnur í biðflokki og verndarflokki. En þegar einhver orkukostur, þegar virkjunarkostur er kominn í nýtingarflokk þá tel ég og við í Samfylkingunni, og við settum þetta einmitt sérstaklega inn (Forseti hringir.) í útspilið okkar um orkumál sem við kynntum núna á dögunum, að það væri við hæfi að lögbinda það sérstaklega (Forseti hringir.) að leyfisveitingar vegna þeirra virkjunarkosta (Forseti hringir.) eigi að vera í forgangi þannig t.d. að Hvammsvirkjun taki ekki 18 mánuði hjá Orkustofnun (Forseti hringir.) vegna þess að það er verið að afgreiða um leið fullt af einhverjum smávirkjunum.