154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[21:29]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og umræðurnar hér í dag og í gærkvöldi. Mig langar kannski aðeins að halda áfram með þetta sem hefur verið bent á varðandi þessa umsögn sem er að koma hérna frá Alþýðusambandi Íslands. Ég ætla að hafa þann formála að því að ég held að það sé þannig í þessum sal að ansi margir þingmenn hrökkvi í kút þegar það koma inn breytingartillögur frá meiri hluta atvinnuveganefndar hér á milli umræðna án þess að þær hafi kannski verið gaumgæfðar eitthvað sérstaklega mikið þá í aðdragandanum. Ég er auðvitað að tala þá um að sporin hræði með vísan í búvörulögin eins og við þekkjum nú umræðuna og það hvernig mál fékk algjöra eðlisbreytingu og tilfinning margra var að þar hefðu menn farið svolítið fram úr sér, a.m.k. var niðurstaðan úr því máli engan veginn góð, hvorki fyrir neytendur eða bændur eins og ég held að við munum fá staðfest í fyllingu tímans.

En eins og bent hefur verið á er Alþýðusambandið að senda inn umsögn og það er verið að hnýta í þá breytingartillögu sem þarna er komin inn að gera stórnotendur að markaðsaðilum raforku sem geti selt orku inn á kerfið til að bregðast við orkuskorti án þess að stjórnvöld þurfi að grípa inn í. Þarna er Alþýðusambandið að benda á að breytingin virðist lítil en áhrifin geti verið veruleg. Ég velti því fyrir mér hvort þetta kalli ekki á miklu ítarlegri yfirlegu og skoðun af hálfu atvinnuveganefndar. Nú tek ég það fram að ég á ekki sæti í atvinnuveganefnd og þingmaður Viðreisnar þar, Hanna Katrín Friðriksson, er auðvitað búin að fara vítt og breitt yfir málið í ræðu fyrr í dag. En mig langar að spyrja hv. þm. Njál Trausta Friðbertsson hvort einmitt í ljósi þessara athugasemda Alþýðusambandsins sé ekki einboðið að við þurfum að fara okkur svolítið hægt í þessu máli, skoða áhrif þessarar breytingartillögu mun betur heldur en mér sýnist hafa verið gert.