140. löggjafarþing — 119. fundur,  12. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[21:43]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar hefur lagt til ákveðnar breytingartillögur. Ég kom líka inn á það í máli mínu, rakti meðal annars að ég tæki undir þær áherslur sem meiri hlutinn teldi að þyrfti að ná fram, m.a. hvað varðar viðhald, tengivegi o.fl., en taldi ekki nóg gert í þessum málaflokkum.

Ég vitna aftur til þess sem hefur komið fram í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun þess efnis að vegakerfið sé að eldast og að það skorti gríðarlega á viðhaldsfjármuni til samgöngumála. Þau orð standa fyllilega. Þannig liggur staðan nákvæmlega í dag. Það er ekki áætlað nægilegt fjármagn til viðhalds vegakerfisins eins og gert er ráð fyrir og það liggur ljóst fyrir að ef ekki verður aukið frekar við viðhald kemur þessi stóri skellur. Á þetta hefur Vegagerðin bent, á þetta benda menn allt í kringum landið, í kjördæmi okkar hv. þingmanns og víðar.

Varðandi það hversu margar breytingartillögur ég hef lagt fram og tekið þátt í að leggja fram við samgönguáætlun held ég að það sé ekki svaravert. Breytingartillögurnar taka meðal annars á þessum málum sem ég vitnaði til, viðhaldi tengivega og fleiri þáttum. Ég held að það geti varla verið einhver mælikvarði á gæði tillagna hversu margar þær eru. Það er hæstv. ríkisstjórn sem hefur lagt fram lista sem ríkisstjórnin getur krossað við.

Varðandi það hvar mögulegt sé að ná í fjármagn í þessi verkefni ætla ég að koma inn á það í mínu seinna andsvari því að tíminn er liðinn núna.